Sveitarstjórn

19.12.2005 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 106

Mánudaginn 19. desember 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.  Fundurinn hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Bréf frá Grenivíkurskóla dags. 13.12.2005.  Efni:  Grænfáninn; umbætur í umhverfismálum.
Er verið að óska eftir tilnefningu frá sveitarstjórn í umhverfisnefnd vegna Grænfánaverkefnis sem skólinn er þátttakandi í.  Samþykkt að tilnefna sveitarstjóra í nefndina að hálfu sveitarstjórnar.

2. Bréf frá Þórsteini Jóhannessyni dags. 6. des. 2005.  Efni:  Kauptilboð á spildu. 
Er hann að bjóða í landspildu úr Hvammslandi neðan þjóðvegar sunnan Hvammsár, stærð 18 ha.  Erindinu frestað.  Jenný vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

3. Bréf frá Hólmfríði Árnadóttur dags. 5. des. 2005.  Efni:  Líkamsræktin. 
Hún er að óska eftir, fyrir hönd nokkurra aðila, að hægt sé að draga gjald í líkamsræktina af launum starfsfólks sveitarfélagsins.  Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra að útfæra málið nánar, sem og að kanna kosti á greiðsludreifingu fyrir aðra en starfsmenn sveitarfélagsins.

4. Bréf frá starfsfólki Krummafótar dags. 5. des. 2005.  Efni:  Opnunartími leikskólans um jólin. 
Er verið að óska eftir að leikskólanum verði lokað milli jóla og nýárs.  Eftir viðræður við leikskólastjóra þykir ljóst að ekki er unnt að verða við beiðninni.

5. Bréf frá Hauki Vésteini Gunnarssyni dags. 5.12.2005.  Efni:  Leiga á landi. 
Er hann að mótmæla þeim áformum að Hvammsland verði leigt aftur til einstaklinga til rjúpnaveiða.  Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi leigu á landi til rjúpnaveiða.  Verði tekin ákvörðun um áframhaldandi leigu, mun verða auglýst eftir tilboðum í leigu landsins.

6. Bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dags. 7. nóvember 2005.  Efni:  Endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. 
Þar sem verið er að endurskoða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er verið að kalla eftir athugasemdum frá sveitarfélögunum.  Samþykkt að sveitarstjóri sendi inn athugasemdir varðandi grunnskólaframlag sem og framlög frá jöfnunarsjóðnum almennt.

7. Bréf frá Latabæ dags. 17. nóvember 2005.  Efni:  Orkuátak 2006 - Virkjum orku komandi kynslóða.  Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 30.000-, sem kemur til greiðslu á árinu 2006.

8. Brunavarnaáætlun Grýtubakkahrepps. 
Áætlunin lögð fram og lýsir sveitarstjórn ánægju sinni með gerð áætlunarinnar, sem er á allan hátt faglega unnin.  Ljóst er að þörf er á að kostnaðarmeta ákveðna hluta áætlunarinnar og er afgreiðslu frestað þar til kostnaðaráætlun liggur fyrir.

9. Bréf frá Brunamálastofnun dags. 28. nóv. 2005. 
Í bréfinu koma fram niðurstöður úr úttekt á slökkviliði Grenivíkur, sem gerð var 22. ágúst sl.  Samkvæmt skýrslunni er ástand og þjálfun slökkviliðsins talið ágætt, sem og ástand tækjabúnaðar.  Einnig er bent á hvaða búnað vantar til að búnaður slökkviliðsins geti talist fullnægjandi.  Í heildina er ástand slökkviliðs og búnaðar talið ágætt.

10. Fundargerð leikskólanefndar frá 07.12.2005. 
Fundargerðin samþykkt með fyrirvara um gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006.

11. Samningsumboð vegna Félags ísl. Félagsvísindamanna. 
Samþykkt að veita launanefnd sveitarfélaga umboð til samninga við Félag íslenskra félagsvísindamanna að hálfu Grýtubakkahrepps.

12. Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2006, seinni umræða. 
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2006:
* Tekjur    139.072 þ.kr.
* Rekstrargjöld og fjárfestingar 156.753 þ.kr.
* Afskriftir    17.057 þ.kr.
* Afborganir af lánum  6.000 þ.kr.
* Verðbætur    6.500 þ.kr.
* Lántaka    1.000 þ.kr.
* Óráðstafað    876 þ.kr.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 samþykkt.

13. Önnur mál.
Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl.  20:10.