Sveitarstjórn

05.09.2005 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 100

Mánudaginn 5. september 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.  Fundurinn hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerðir byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 5. júlí, 19. júlí og 18. ágúst 2005.
Í fundargerð frá 5. júlí lið 1, sækir Pétur Þórarinsson í Laufási um leyfi til að að byggja fjárhús á jörðinni Laufási. Í fundargerð frá 19. júlí sækja Ester Einarsdóttir og Helga Einarsdóttir um leyfi til að byggja við íbúðarhúsið Þengilbakka í Grýtubakkahreppi.  Fundargerðirnar lagðar fram og ofangreindir liðir samþykktir.  Jón Helgi vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

2. Bréf frá Bændasamtökunum frá 12. júlí 2005. 
Er verið að svara bréfi frá Grýtubakkahreppi, dags. 7. júní sl. varðandi gæðastýringu í sauðfjárrækt.  Samþykkt að leita eftir samstarfi við Fjárræktarfélag Grýtubakkahrepps um skipulagningu nýtingar afréttar, til að uppfylla kröfur varðandi gæðastýringu í sauðfjárrækt.

3. Bréf frá slökkviliðsstjóra Grýtubakkahrepps dags. 26. júlí 2005.
Bréfið er vegna geymslu á hráolíu við Lundsbraut 4b á Grenivík en þessi aðferð við geymslu á olíu er alfarið á móti öllum reglum, bæði vegna elds og mengunar.  Sveitarstjóra falið að sjá til þess, í samráði við Brunamálastofnun ríkisins og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands-eysta, að olíubirgðirnar verði geymdar með lögmætum hætti, ellegar fjarlægðar.

4. Fundargerð stjórnar Búfjáreftirlits 18. svæðis frá 23. júní 2005. 
Lagt fram.

5. Bréf frá Gunnari Óla Kristjánssyni og Nínu Jensen dags. 23. ágúst 2005. 
Eru þau að sækja um lóð að Lækjarvöllum 16 á Grenivík.  Samþykkt að úthluta Gunnari og Nínu lóðinni með fyrirvara um húsgerð.

6. Bréf frá Jóni Helga Péturssyni dags. 19. ágúst 2005. 
Er hann að sækja um lóð þar sem Sæland stóð áður fyrir hönd Inga Más Helgasonar, Telmu Harðardóttur, Gunnars Egils Þórissonar og Bríetar Þorsteinsdóttur.  Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og lýsir sig reiðubúna að úthluta umsækjendum lóð á viðkomandi stað, með fyrirvara um húsgerð, að frágenginni breytingu á skipulagi.  Jón Helgi vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

7. Tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 10. ágúst 2005. 
Er verið að leita eftir umboði til handa Launanefnd sveitarfélaga til að gera kjarasamning við Verkstjórafélag Íslands, f.h. Grýtubakkahrepps.  Samþykkt að veita nefndinni umboðið.

8. Málþing sveitarfélaga um velferðarmál. 
Málþingið verður haldið 29. september nk.  Lagt fram.

9. Aukning hlutafjár í Greiðri leið ehf. 
Er verið að bjóða út nýtt hlutafé í Greiðri leið ehf, en á aðalfundi félagsins var samþykkt hækkun á hlutafé félagsins um allt að kr. 95.590.000,-.  Samþykkt að taka ekki þátt í hlutafjáraukningunni.

10. Fundargerð skólanefndar Grenivíkurskóla frá 29. ágúst 2005. 
Fundargerðin samþykkt.

11. Bréf frá Fjörðungum ehf. dags. 31. ágúst 2005.
Eru þeir að sækja um land til leigu fyrir rjúpnaveiði úr Hvammslandi.  Sveitarstjórn samþykkir að leigja Fjörðungum ehf. ofangreint land til veiða á komandi veiðitímabili, þar sem að eitt ár var eftir af leigusamningi, sem áður hafði verið gerður við Fjörðunga ehf., þegar bann á rjúpnaveiði var sett.  Að þessu tímabili loknu verður leiga landsins boðin út, sé á annað borð vilji fyrir að veita leyfi til rjúpnaveiði áfram á viðkomandi landssvæði.  Jóhann og Guðný véku af fundi meðan þessi liður var ræddur.

12. Tölvupóstur frá Nóa Björnssyni dags. 17. ágúst 2005.
Nói sækir um stækkun á íbúðarhúsi í Þengilbakka.  Erindið samþykkt.

13. Undirskriftalisti frá 11. ágúst 2005 varðandi keyrslu á sundnámskeið.
Undir listan skrifa 11 aðilar sem eiga börn í dreifbýli í Grýtubakkahreppi.  Er verið að mótmæla því að sveitarfélagið greiði ekki og sjái ekki um akstur á sundnámskeið í Grýtubakkahreppi.  Fram kemur í bréfinu að tilgangur þess sé tvíþættur, annars vegar að sveitarstjóri viðurkenni mistök sín og sveitarstjórn sjái til þess að mál að þessu tagi endurtaki sig ekki og hins vegar að þau fái greitt fyrir akstur barna sinna á sundnámskeið þar sem orðið er of seint að koma á skipulögðum skólaakstri.  Til að lágmarka kostnað sveitarfélagsins vegna þessara mistaka er lagt til að sveitarstjórn reikni út þann kostnað sem hlotist hefði af skólakeyrslunni og deili upphæðinni á milli foreldranna.  Þegar sveitarstjórn tók ákvörðun á sínum tíma um að bjóða börnum upp á sundnámskeið þeim að kostnaðarlausu, sbr. 8. lið fundargerðar sveitarstjórnar frá 20. júní 2005, lá ljóst fyrir að námskeiðinu var ekki ætlað að koma í stað skólasunds.  Hefði slíkt verið ætlunin hefði önnur tímasetning orðið fyrir valinu, þar sem fyrir lá að ekki ættu öll börn kost á að sækja námskeiðið í heild sinni m.a. vegna sumarleyfa.  Einnig hefði þá verið boðið upp á kennslu fyrir allar bekkjardeildir.  Því var ákveðið að bjóða upp á byrjendanámskeið í sundi fyrir þá sem gætu og vildu nýta sér það.  Á þeim forsendum hafnar sveitarstjórn erindinu.

14. Sameining sveitarfélaga við Eyjafjörð í eitt sveitarfélag og málefnaskrá. 
Drög að kynningarefni lögð fram.  Fyrir liggur að fulltrúum sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps í nefnd um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð hefur verið synjað um að koma á framfæri sínum viðhorfum í framangreindu kynningarefni.  Verði ekki komið til móts við viðhorf sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps og fulltrúa hennar í nefndinni, telur sveitarstjórn sér ekki fært að standa að útgáfu kynningarefnisins.  Í upphafi var lagt upp með að í kynningarefninu yrðu kostir og gallar sameiningar kynntir, en ljóst er að framlögð drög uppfylla ekki þá skilgreiningu.

15. Fundargerðir framkvæmdanefndar um Reykjaveitu frá 25. júlí, 19. ágúst og 30. ágúst 2005 og endurbætt hagkvæmnisathugun.  Lagt fram.

16. Fundargerðir "Kaldbakur kallar" frá 21. júní og 11. ágúst 2005. 
Lagt fram.

17. Hugrenningar sveitarstjóra til sveitarstjórnar í lok sumars, dags. 1. september 2005. 
Farið yfir hugrenningar sveitarstjóra sem fjölluðu um vígslu íþróttamiðstöðvar og sparkvallar, Kaldbaksveg, sumarhúsabyggð, Reykjaveitu, gangnamannaskýli, umbætur á leikvelli, skábraut fyrir smábáta og göngukort.

18. Erindi frá skólastjóra Grenivíkurskóla dags. 2. september 2005.
Er hann m.a. að spyrja eftir systkinaafslætti í mötuneyti, afslætti fyrir kennara í mötuneyti þar sem þeir sinni ákveðinni gæslu og umbun fyrir eldri nemendur þar sem iðnaðarmenn voru í mötuneytinu á síðasta skólaári.  Sveitarstjórn telur ekki tilefni til systkinaafsláttar hvað varðar mötuneytiskostnað, þ.s. kostnaðurinn er miðaður við hráefniskostnað en ekki vinnu og er mjög í hóf stillt.  Hvað varðar afslætti fyrir kennara telur sveitarstjórn eðlilegt að samræma fæðiskostnað þeirra og nemenda.  Varðandi umbun fyrir eldri nemendur vegna sölu á fæði til iðnaðarmanna, telur sveitarstjórn slíkt vel til fallið og óskar eftir aðkomu skólastjóra og starfsmanna skóla varðandi hugmyndir þar um.

19. Önnur mál.
Samþykkt að leita afbrigða og taka fyrir erindi frá Umhverfisstofnun, dags. 2. september 2005, þar sem óskað er eftir áliti Grýtubakkahrepps á því hvort og á hvaða forsendum framkvæmd við lagningu vegslóða upp á Grenivíkurfjall skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Sveitarstjórn telur ofangreindar framkvæmdir ekki falla undir framkvæmdir,  þar sem krafist er mats á umhverfisáhrifum.  Ástæða þess að samþykkt var að leita afbrigða er að óskað er svars fyrir 14. september og fyrirséð að ekki yrði boðað til fundar sveitarstjórnar fyrir þann tíma.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 21:00.