Sveitarstjórn

20.06.2005 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 98

Mánudaginn 20. júní 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir.  Einnig sat sveitarstjóri fundinn.  Fundurinn hófst kl. 18,30.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Málefni Tónlistarskóla Eyjafjarðar. 
Árskýrsla Tónlistarskóla Eyjafjarðar, fundargerð skólanefndar TE dags. 24.05.2005, skipting áætlaðs launakostnaðar og nemendaskráning 2005-2006, lagt fram og rætt.  Fyrir liggur að aðsókn í tónlistarnám hefur aukist gífurlega með tilheyrandi hækkun á kostnaði sveitarsjóðs.  Ljóst er að ekki verður unnt að bjóða upp á allt það nám sem sótt hefur verið um og er sveitarstjóra falið að ræða við skólastjóra TE um með hvaða hætti best er að ná fram lækkun kostnaðar.  Samþykkt að ekki verður boðið upp á nám fyrir 20 ára og eldri á komandi skólaári.

2. Kaldbakur kallar. 
Lögð fram drög að samningi um stofnun starfshóps til að vinna að því að auðvelda aðgengi útivistarfólks að Kaldbaki.  Drögin samþykkt, með smávægilegum breytingum.  Samþykkt að tilnefna sveitarstjóra og Sigurbjörn Höskuldsson í stjórn starfshópsins að hálfu Grýtubakkahrepps.

3. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 7. júní sl. 
Lagt fram.

4. Bréf frá Sýslumanninum á Akureyri dags. 8. júní 2005. 
Í bréfinu er sýslumaður að leita umsagnar á umsókn Guðbergs Egils Eyjólfssonar til að reka gistingu á einkaheimili að Hléskógum, 601 Akureyri.  Sveitarstjórn samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti.

5. Bréf frá sjávarútvegsráðuneytinu dags. 7. júní 2005. 
Í bréfinu er verið að auglýsa eftir umsóknum um byggðakvóta.  Samþykkt að fela sveitarstjóra að útbúa drög að umsókn um byggðakvóta og rökstuðningi fyrir henni.

6. Bréf frá Umhverfisstofnun dags. 9. júní 2005. 
Í bréfinu er verið kynna reglur um viðbrögð við grun um illa meðferð dýra.  Lagt fram.

7. Bréf frá Slysavarnafélagi Íslands frá 13. júní 2005. 
Í bréfinu koma fram ábendingar um mögulegar úrbætur til að auka umferðaröryggi á Grenivík.  Sveitarstjóra falið að vinna að úrbótum þar sem tilefni eru til.

8. Sundkennsla. 
Bréf frá skólastjóra lagt fram, þar sem fram kemur að boðið verði upp á sundnámskeið fyrir 1.-5. bekk áður en skóli hefst í haust.  Samkvæmt bréfinu verður námskeiðið haldið 3.-12. ágúst.  Samþykkt að kanna hvort hægt sé að seinka námskeiðinu eitthvað vegna sumarleyfa.  Sé slíkt ekki unnt verði námskeiðið haldið á fyrrgreindum tíma.  Í bréfinu er þess getið að um frjálsa mætingu er að ræða og að börnin geti nýtt sér hluta úr námskeiðinu.

9. Gæsla í Fjörðum. 
Lagt fram bréf frá Bergvini Jóhannssyni og Önnu Báru Bergvinsdóttur, þar sem óskað er eftir því að Grýtubakkahreppur geri samning við undirritaða um landvörslu í Fjörðum næstu 3 sumur, líkt og verið hefur undanfarin ár.  Jafnframt er óskað eftir því að greiddar verði kr. 75.000- ár ári, fyrir að landverðir sjái sjálfir um að útvega aðstöðu fyrir sig í Fjörðum.  Óskað er eftir því að greiðsla fyrir aðstöðu sé greidd fyrir allan samningstímann í upphafi samningstímabils, vegna útlagðs kostnaðar landvarða við að koma sér upp aðstöðu.  Erindið samþykkt og sveitarstjóra falið að undirrita samning þess efnis.

10. Reykjaveita. 
Lögð fram drög að viljayfirlýsingu um lagningu hitaveitu frá Reykjum í Fnjóskadal til Grenivíkur.  Samkvæmt því sem fram kemur í viljayfirlýsingunni er ljóst að þeir aðilar sem að verkefninu muni koma þurfi að ábyrgjast hluta af framkvæmdakostnaði, þar sem líkur eru á að veitan sem slík sé ekki arðbær.  Sveitarstjórn er ekki reiðubúin að undirrita viljayfirlýsinguna eins og hún er lögð fram og telur nauðsynlegt að gera fyrirvara um hver ábyrgð sveitarfélagsins verður og að tryggt sé að lokið verði við framkvæmdina að fullu, þ.m.t. lagningu hitaveitu á Grenivík.

11. Önnur mál.
Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:30.