Sveitarstjórn

23.05.2005 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 95.

Mánudaginn 23. maí 2005 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundur hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerð byggingarnefndar Grenivíkurskóla frá 10. maí 2005. 
Lögð fram og samþykkt.  Varðandi 2 tl. fundargerðarinnar og útgjaldaauka vegna hans, er vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.  Jafnframt er samþykkt að leggja dúk á skrifstofu skólastjóra, en það var rætt á fundi nefndarinnar án þess að samþykkt þess efnis hafi verið færð til bókar.

2. Fundargerð skólanefndar Grenivíkurskóla frá 29. apríl 2005. 
Fundargerðin lögð fram og samþykkt.  Varðandi 6. tl. um sameiginlega skólanefnd fyrir leik- og grunnskóla, er samþykkt að leita eftir áliti viðkomandi nefnda.

3. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 11. apríl 2005.  Lagt fram.

4. Skoðun á leiksvæði grunnskólans á Grenivík frá 29. apríl 2005.
Skoðunina gerði Þórey Agnarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.  Samþykkt að óska eftir fresti til endurbóta til næsta árs, þar sem úrbæturnar rúmast ekki innan fjárhagsáætlunar ársins 2005.

5. Bréf frá Umhverfisstofnun dags. 26. apríl 2005.
Í bréfinu er verið að kynna náttúruverndaráætlun fyrir Látraströnd - Náttfaravíkur, en fyrirhugaður er fundur um málefnið á næstunni.  Lagt fram.

6. Fundargerð héraðsráðs Eyjafjarðar frá 4. maí 2005. 
Lagt fram.

7. Fundargerð félagsmálanefndar frá 22. mars 2005. 
Fundargerðin samþykkt.

8. Fundargerð leikskólanefndar frá 26. apríl 2005. 
Fundargerðin samþykkt.

9. Erindi frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar frá 12. maí 2005.
a. Tillaga að breytingum á stofnsamningi.  Tillaga að breyttum stofnsamningi samþykkt.
b. Stefnumörkun fyrir byggðasamlagið.  Lagt fram.
c. Fundargerðir frá 9. mars, 30. mars og 11 maí 2005.
Lagðar fram.

10. Skýrsla um hitaveitu frá Reykjum í Fnjóskadal (sent í tölvupósti).  
Skýrslan var unnin af Verkfræðistofu Norðurlands að tilstuðlan Norðurorku, Þingeyjarsveitar og Grýtubakkahrepps.  Í skýrslunni kemur fram að lagning veitunnar er ekki talin hagkvæmur kostur.  Lagt fram.

11. Sundnámskeið og opnun sundlaugar. 
Samþykkt að boðið verði upp á sundnámskeið fyrir skólabyrjun í ágústmánuði.  Lagt er til að námskeiðið nái til barna í 1.-5. bekk.  Einnig var rætt um hvenær kostur verður á að opna sundlaugina í sumar.

12. Skólavistun í Grenivíkurskóla skólaárið 2005-2006. 
Lagðar fram viðmiðunarreglur og tillaga að gjaldskrá frá skólastjóra.  Samþykkt.

13. Drög að samþykkt fyrir fráveitur í Grýtubakkahreppi.  Fyrri umræða. 
Fyrri umræðu lokið.

14. Bréf frá Soffíu Daðadóttur, áður tekið fyrir. Sjá lið 6 í fundargerð frá 18. apríl.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem sveitarstjóri hefur fengið á Soffía ekki rétt á launahækkun vegna sjúkraliðamenntunar í núverandi starfi.

15. Héraðsdómur Norðurlands eystra frá 20. apríl 2005. 
Dómurinn tekur til landamerkjadeilna í Grenivíkurtungum og Leirdalsheiði.  Dóminn er að finna á heimasíðu Héraðsdóms Norðurlands eystra (www.hdne.is).  Í dómnum er fallist á kröfu hreppsins.

16. Önnur mál.

Bréf hefur borist frá Ölfu Aradóttur, þar sem hún segir starfi sínu við félagsmiðstöðina Gryfjuna lausu.  Sveitarstjórn þakkar Ölfu góð störf.

Samþykkt að styrkja Björgunarsveitina Ægi vegna sjómannadagshátíðar með því að veita sveitinni endurgjaldslaus afnot af samkomusal Grenivíkurskóla til hátíðarhalda.

Samþykkt að taka á dagskrá erindi frá Trégrip ehf.  Í erindinu er Trégrip ehf. að óska eftir heimild til að byggja iðnaðarhúsnæði að Hafnargötu 3 Grenivík, austurenda.  Samþykkt að setja bygginguna í grenndarkynningu en afgreiðslu erindisins frestað að öðru leyti.  Benedikt vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:00.