Landbúnaðarnefnd

03.08.2006 00:00

Fundur landbúnaðarnefndar 3. ágúst

Fyrsti fundur nýrrar nefndar haldinn í fundarstofu Grýtubakkahrepps og hófst kl. 17:00. Mættir voru allir nefndarmenn; Ásta F. Flosadóttir, Jóhann Ingólfsson og Þórarinn Ingi Pétursson.
Fyrsta verk nefndarinnar var að skipta með sér verkum, Jóhann var kosinn formaður og Ásta ritari.

Málefni fundarins:

1.Fjallskil
Fyrst var farið yfir forðagæsluskýrslur og talið saman fé á bæjunum. Heildarfjárfjöldi skv. forðagæsluskýrslum er 3072 sem er lítilsháttar fjölgun frá fyrra ári. Ákveðið var að hækka dagsverkið í göngum um 20%. Einróma samþykkt að hækka gangnakostnað á kind svo fjallskilasjóður eigi vel fyrir kostnaði við eftirleitir. Töluvert rætt um fyrirkomulag og framkvæmd gangna. Ákveðið að bæta við manni á Látraströnd í seinni göngum og eins að leggja á tvo menn í fyrirstöðu. Réttardagar 2006 verða 2. september og 24. september. Þá var ákveðið að boða viðhaldsdag á réttinni í vikunni fyrir göngur. Gangnaboð verður sent út fljótlega, um leið og fjallskilastjóri hefur gengið endanlega frá því.

2.Áburðarmál á afréttinni
Rætt um skipulag áburðardreifingar skv. Landbótaáætlun. Landbótaáætlunin er ein af forsendum gæðastýringar í sauðfjárrækt og tekur til landbóta og landnýtingar á afréttinni. Landgræðsla ríkisins leggur til þónokkuð magn áburðar sem bændur taka að sér að koma á svæðið á Hávörðum, en það svæði telur landgræðslan að þurfi einna helst á áburðargjöf að halda. Bændur þurfa að koma áburðinum út á heiðina sem og tækjum til dreifingar. Ákveðið að reyna að komast í þetta í næstu viku og ræða við fleiri sauðfjárbændur um að vinna að dreifingunni.

3.Umgengni á afréttinni
Ásta rifjaði upp fund sem haldinn var á Grenivík fyrir nokkrum árum þar sem Ólafur R. Dýrmundsson var með framsögu um afréttarmálefni. Ólafur lagði þar til að settar yrðu reglur m.a. um umferð á afréttinni og aðra þá þætti sem gætu truflað frið sauðfjár á svæðinu. Landvörður hefur orðið var við utanvegaakstur torfæruhjóla nú í sumar og nefndarmenn eru sammála um að m.a. þessháttar umferð sé vandamál sem verði að taka á. Ákveðið að funda um umgengisreglur á afréttinni og móta tillögur að reglum sem lagðar yrðu fyrir sveitarstjórn. Þessu máli er því frestað til næsta fundar.

Fleira var ekki rætt undir formlegri dagskrá og fundi slitið enda komið fram yfir venjulegan kvöldmatartíma og nefndarmenn orðnir illa haldnir af hungri.