Fræðslu- og æskulýðsnefnd

19.05.2015 00:00

Fræðslu og æskulýðsnefnd – 8 fundur

Fundur í fræðslu- og æskulýðsnefnd haldinn 19.05.2015 klukkan 17:00 í Grenivíkurskóla. Fundinn sátu Sigurbjörn Þór Jakobsson, Þórunn Lúthersdóttir,  Auður Adda Halldórsdóttir og Fjóla Stefánsdóttir. Einnig sátu fundinn Þorgeir Finnsson, Margrét Ósk Hermannsdóttir, Ragnheiður María Harðardóttir, Þröstur Friðfinnsson og  Inga María Sigurbjörnsdóttir sem áheyrnarfulltrúar fyrir grunnskóla, leikskóla, foreldrafélag, sveitastjórn og kennara. Þorsteinn Þormóðsson boðaði forföll.  Sigurbjörn setur fundinn og stjórnar honum. Þórunn ritar fundargerð.

Málefni leikskóla:

Farið yfir leiksskóladagatal 2015-2016, litlar breytingar nema starfsdagar færðir til. Þetta er í samræmi við starfsdaga í grunnskólanum. Dagatal samþykkt. Foreldraráð er tekið til starfa hjá leikskólanum, til bráðabirða hefur stjórn foreldrafélagsins tekið það að sér. Fimm börn eru að hætta í maí og leiksskólinn því vel mannaður. Í haust hætta svo 5 börn og ekki koma mörg inn í staðinn. Eldhúsið í leikskólanum er farið að láta á sjá og er t.d. bökunarofn orðinn mjög lélegur. Aðstaða fyrir sérkennslu er líka mjög takmörkuð og þyrfti að gera ýmislegt t.d. mála. Nefndin óskar eftir að Margrét Ósk setji á blað þau atriði sem mest liggur á að láta lagfæra í húsnæði leiksskólans.

Málefni grunnskóla:

Þorgeir leggur fyrir nefndina tillögu að hópaskiptingu fyrir veturinn 2015-2016. Lagt er upp með fjóra hópa en tveir hópar taka þá yfir 3 bekki. Mögulega verður þörf á aukastuðningi inn í hópana þegar líður á veturinn og er tillagan sett upp með þeim fyrirvara. Tillagan skoðast samþykkt. Skóladagatal 2015-2016 er lagt fram. Helsta breytingin er að vegna fyrirhugaðrar námsferðar til Ítalíu þá færist skólasetning til 1 september. Starfsdagar verða færðir til að koma til móts við Ítalíuferðina. Skóladagtal 2015-2016 samþykkt. Haldið verður áfram með verkefni sem skólinn hefur verið að vinna með undanfarin ár. Farið verður í vinnu að meta hvaða verkefni skólinn vilda halda áfram með og teymi vinni að þeim verkefnum. Innleiða á læsisstefnu í skólanum. Skólaráð á eftir að funda um breyttan skólatíma. Stefnt er að því að skóli hefjist kl. 08:20. Verið er að taka í gegn eldhúsið í skólanum og gengur breytingin vel. Starfsmannamál eru í góðu lagi, nýr matráður tekur við af Sólveigu, Margrét Ösp fer í fæðingarorlof og Sandra Mjöll kemur inn sem skólaliði. Eftir á að finna manneskju til að sinna skólavistun ef hún verður. Námskrárgerð er ennþá í vinnslu. Þorgeir leggur fram hugmynd að því að námskrá skólans verði á formi skólahandbókar og heimasíðu sem hefðu ígildi námsskrár og starfsáætlunar, slíkt er þekkt í öðrum skólum. Nefndin samþykkir það fyrir sitt leyti. Vonast er til að vinnu við námskrá verði lokið í sumar eða haust.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl 18:30.