Fræðslu- og æskulýðsnefnd

16.01.2015 00:00

Fræðslu og æskulýðsnefnd – 7 fundur

Fundur í fræðslu- og æskulýðsnefnd haldinn 16.01.2015 klukkan 15:00 í Grenivíkurskóla. Fundinn sátu Sigurbjörn Þór Jakobsson, Þórunn Lúthersdóttir,  Auður Adda Halldórsdóttir, Fjóla Stefánsdóttir og Þorsteinn Þormóðsson. Einnig sátu fundinn, Þorgeir Finnsson og Margrét Ósk Hermannsdóttir sem fulltrúar fyrir skóla og leikskóla og  Inga María Sigurbjörnsdóttir sem áheyrnarfulltrúi  fyrir grunnskólakennara og foreldra leiksskólabarna. Sigurbjörn setur fundinn og stjórnar honum. Þórunn ritar fundargerð.

Málefni leikskóla:

Margrét Ósk ræðir mál leikskólans. Starfsmannamál leikskólans eru í góðum málum. Vantar aðstöðu fyrir sérkennslubörn og ekki er góð þurrkaðstaða fyrir starfsfólk. Bæta mætti aðgengi fyrir starfsmenn svo hægt sé að nýta nýjan inngang á viðbyggingu. Vantar betri aðstöðu fyrir skólahópinn en í dag er kaffistofa starfsmanna notuð fyrir hann.
Í öðrum leiksskólum er foreldraráð sem les yfir námskrár, skóladagatal og fleira, hér er ekkert slíkt. Nefndin er sammála um að það myndi efla starf leiksskólans ef það væri starfrækt virkt foreldraráð.  Starfsdagar ræddir og tímasetningar á þeim og samræming við  starfsdaga hjá grunnskólanum. Margrét er að skoða fyrirkomulag á foreldraviðtalsdögum.

Málefni grunnskóla:

Þorgeir ræðir mál grunnskólans. Skólastarfið er í góðum gír. Námsver fyrir stuðningskennslu er að skila góðum árangri. Þorgeir lagði fyrir  skóladagatal 2015-2016. Þar bar hæst á góma fyrirhuguð námsferð í lok ágúst. Skólasetningu og skólaslitum myndi seinka og hluti starfsdaga myndu vera nýttir í þessa ferð. Þorgeir lagði fram drög að hópaskiptingu bekkja fyrir árið 2015-2016. Tillögurnar voru tvær og gengið út frá 4 hópum eða 5 hópum. Starfsmannamál voru rædd. Hákon íþróttakennari fer í fæðingarorlof og ekki er búið að fá afleysingu fyrir hann. Margrét Ösp fer væntanlega í fæðingarorlof næsta vetur. Síðan mun þurfa að ráða stuðningsfulltrúa fyrir einn nemanda í fyrsta bekk sem hefur skólagöngu næsta haust. Ásta Flosadóttir er í fæðingarorlofi til 1 desember en Þorgeir hefur ráðningu til 15 ágúst, því þarf að brúa það bil sem þar myndast.

Leið til læsis er stuðningskerfi í lestrarkennslu á yngstu stigum sem verið er að prófa sig áfram með. Skólanámskráin er í vinnslu og stefnt er að hún verði tilbúin á vordögum. Húsnæðið er í nokkuð góðum málum en þörf er á málningarvinnu og leki er með þakgluggum sem þarf að laga. Fjárhagsáætlun sýnir m.a. að umtalsverðar hækkanir verða á launaliðum næsta skólaár og búið er að gera ráð fyrir því.

Erindi frá Sambandi íslenskra sveitafélaga um að hækka menntunarstig leiksskólastarfsmanna
Erindið lagt fram.

Erindi um að breyta skólatíma Grenivíkurskóla
Þorgeir greinir frá niðurstöðu könnunar um breyttan tíma á upphafi skóladags. Um tveir þriðju kjósenda vildi að skólinn byrjaði fyrr s.s. um kl 8 eða 8:20. Um þriðjungur vildi halda sama tíma. Rök á móti eru að þetta eykur þörf á gæslu eftir skóla og nemendur í sveitinni þurfa að fara fyrr af stað að heiman. Nefndin er sammála um að breyting á skólatíma þannig að skólastarf hefjist kl 8:15 eða 8:20 sé breyting til batnaðar og felur skólastjóra að útfæra það.

Erindi frá Þorrablótsnefnd
Þorrablótsnefnd barst erindi frá starfsfólki Grenivíkurskóla þar sem það kemur á framfæri sinni skoðun að hækka eigi aldurstakmark á þorrablót Grýtubakkahrepps úr 16. ára í 18. ára. Þorrablótsnefnd óskar eftir áliti FRÆSK. Meirihluti nefndar mælir með að aldurstakmark á þorrablót verði hækkað í 18 ár. Þá vísar meirihluti nefndar í 18. gr. áfengislaga ,,að á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl 20 á kvöldin og fram til lokunar staðarins, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka,,. 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl 17:15.