Fræðslu- og æskulýðsnefnd

25.09.2008 00:00

Fundur Fræðslu- og æskulýðsnefndar 25. september 2008

Mættir voru nefndarmennirnir Benedikt Sveinsson, Margrét Ösp Stefánsdóttir, Sigurlaug Sigurðardóttir og Þorsteinn Friðriksson. Fjarverandi var Jón Helgi Pétursson. Stefanie Lohmann sat fundinn í hans stað.
Einnig sátu fundinn Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri, Ásta F. Flosadóttir skólastjóri, Inga María Sigurbjörnsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Edda Björnsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Margrét Ósk Hermannsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskóla. Eygló Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna boðaði forföll og ekki náðist að boða varamann.
Fundurinn var haldinn í Gamla skóla kl. 17:00 og voru gjörðir fundarins eftirfarandi:
 
1.  Grunnskólahluti
a) Skólastjóri fór yfir upphaf skólaárs. Hann sagði skólann hafa farið vel af stað.  Í ár eru sex námshópar eins og í fyrra og kemur það vel út. Skólanámskrá verður gefin út bráðlega og verður send á hvert heimili, auk þess sem hún er birt á heimasíðu skólans. Einnig var farið af stað með skólaheit og gæðahring í haust og hvort tveggja fer vel af stað.

b) Skólavistun. Skólavistun er núna fyrir 1.-3. bekk alla daga nema föstudaga.  Nemendur í skólaakstri í 1.-3.bekk þurfa að bíða eina kennslustund tvisvar í viku eftir skólabílnum og eru á meðan í skólavistuninni. 

c) Námskeið, skriftarátak og útiskóli. Kennarar fóru á nudd námskeið í haust og eru nú að hvetja nemendur til að nudda hvert annað.  Þekkt er að snerting eykur vellíðan og vellíðan stuðlar að auknum árangri í námi. 
 Einnig fóru kennarar skólans á samskóladag á Þelamörk, þar sem  útiskólinn og grænfánaverkefnið var kynnt.
 Skriftarátakið heldur áfram og hefur Inga María Sigurbjörnsdóttir yfirumsjón með því verkefni. 
 Útiskólinn fer vel af stað og nefna má að nemendurnir tóku upp kartöflur og tíndu fjallagrös. 

d) Umhverfið og heilsan. Skólastjóri fór yfir lýðheilsuverkefnið og grænfánaverkefnið og lýsti því hvernig unnið verður að þessum verkefnum í vetur.  M.a. á að halda áfram að leggja mikla áherslu á útiveru og útileiki.  Bætt var við einum útifrímínútum svo nú fara nemendur út í frímínútum tvisvar í viku.  Edda Línberg hefur tekið við umsjón með lýðheilsuverkefninu.
 Grænfánaverkefnið gengur vel. Verið er að flokka í 12 enduvinnsluflokka og voru þeir kynntir á námsefniskynningu sem haldin var í gær. Verið er að móta næstu skref en byrja á að beina fræðslu út í samfélagið.

e) Skilti við umferðargötu skólans. Skólastjóri minnti á ársgamla bókun fræðslu- og æskulýðsnefndar, sem hljómaði svo: Skólastjóri talaði um mikilvægi þess að fá skilti við skólann sem vekti athygli fólks á því að þarna væru börn í nágrenninu t.d. skilti sem á stæði "börn að leik" eða "skólinn er byrjaður".  Fræðslu- og æskulýðsnefnd beinir því til sveitastjórnar að slíkt skilti verði sett upp við skólann."  Skólastjóri vill ítreka þessa beiðni.

f) Heimasíða skólans og Mentor.  Skólastjóri sagði frá þeirri vinnu sem á sér stað varðandi heimasíðuna og hvernig notkun Mentor kerfisins hefur gengið það sem af er vetri.

g) Foreldraviðtöl og tengsla- og líðanakannanir.  Skólastjóri tók foreldraviðtöl í ágúst og sagði frá því hvernig þau gengu fyrir sig.  Nú á mánudaginn eru foreldrar að hitta umsjónarkennara og þar verður rætt um skólabyrjunina.  Einnig verður rætt um niðurstöður úr tengsla- og líðanakönnunum sem lagðar voru fyrir alla bekki nú í september.  Heilt yfir komu þessar kannanir vel út, t.a.m. virðist vera mjög lítið um stríðni.

2. Sameiginlegur fundur - Samvinna skólastiganna
a) Skólaráðstefna. Haldin verður ráðstefna um skólamál 6. október í Háskóla Íslands. Nefndarmenn og skólastjórar sýndu ráðstefnunni áhuga og kanna á möguleika á því hvort einhver þeirra sjái sér fært að mæta.

b) Skólafatnaður. Rætt var um hvort taka ætti upp skólabúninga. Farið var yfir helstu ástæður um mikilvægi þess að hafa skólabúninga og jafnframt um hvort þörf væri á slíkum klæðnaði. Fræðslu-og æskulýðsnefnd vill beina því til foreldrafélaga leik- og grunnskólans að kanna hvort ástæður og áhugi sé til staðar um að taka upp skólabúninga.

3.  Leikskólahluti
a) Leikskólastjóri fór yfir upphaf vetrar. Leikskólastjóri sagði frá því að vel gengi með yngstu börnin og að veturinn hefði farið vel af stað.

b) Starfsmannamál. Leikskólastjóri lýsti yfir áhyggjum vegna manneklu á leikskólanum. Leikskólann vantar 1½ til 2 stöðugildi. Með þann fjölda af starfsfólki sem leikskólinn hefur í dag er ljóst að ekkert má út af bregða til að dagleg starfsemi leikskólans lamist. Rætt var um til hvaða ráðstafana væri hægt að grípa ef upp koma forföll hjá starfsfólki. Fræðslu- og æskulýðsnefnd tekur undir áhyggur leikskólastjóra af þeirri manneklu sem er á leikskólanum.

c) Aðstaða undir vagna. Þar sem leikskólinn tekur inn ársgömul börn þá hefur börnum fjölgað sem sofa úti í vagni. Til þessa hafa vagnarnir verið geymdir í forstofunni en hún var ekki hönnuð með slíkt í huga og þvælast því vagnarnir fyrir. Fræðslu- og æskulýðsnefnd óskar eftir því að sveitarstjórn sjái um úrlausn á þessu vandamáli. 
 
Fundi slitið kl. 19:10.
Sigurlaug Sigurðardóttir ritaði fundargerð og samþykkt að hún verði send í tölvupósti til samþykktar.

Fundargerðin samþykkt með tölvupósti.