Fræðslu- og æskulýðsnefnd

02.06.2008 00:00

Fundur Fræðslu- og æskulýðsnefndar 2. júní 2008

Mættir voru nefndarmennirnir Ásta F. Flosadóttir, Margrét Ösp Stefánsdóttir og Þorsteinn Friðriksson. Fjarverandi voru  Benedikt Sveinsson og Jón Helgi Pétursson.  Sigurlaug Sigurðardóttir sat fundinn í þeirra stað. Einnig sátu fundinn Inga María Sigurbjörnsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Edda Björnsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Eygló Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Margrét Ósk Hermannsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskóla, Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri, Valdimar Víðisson skólastjóri og Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri.
Fundurinn var haldinn í Gamla skóla kl. 19:30 og voru gjörðir fundarins eftirfarandi:
 
1.  Grunnskólahluti
Starf vetrarins
* Skriftarátak, kannanir og fl. Skólastjóri sagði frá skriftarátaki vetrarins, ásamt heimanámskönnun sem unnin var með nemendum, kennurum og foreldrum. Líðanakönnun var gerð í vetur hjá 5.-8. bekk. Nemendamál sem þurfti að taka á í vetur tókust vel.
* Viðburðir. Danskennsla og fleiri viðburðir fyrir nemendur voru í vetur og voru nemendur sjálfum sér og skólanum til sóma.
* Eineltisstefna skólans. Unnið var að eineltismálum í vetur samkvæmt eineltisstefnu skólans.  Eineltisáætlun er í stöðugri endurskoðun.
* Nýbúakennsla. Skólastjóri lýsti því hvernig nýbúakennsla vetrarins gekk og er ánægður með hvernig tókst til.  Næsta vetur verða engir nýbúar í skólanum svo vitað sé, en reynsla vetrarins er dýrmæt.
* Sjálfsmat. Skólastjóri sagði frá vinnu sjálfsmatsnefndar og telur að áframhaldið sé í góðum farvegi.
* Samræmd próf. Samræmd próf komu vel út og var skólinn yfir landsmeðaltali í öllum greinum.

Starfið næsta vetur
* Skóladagar. Samkvæmt nýjum grunnskólalögum eru skóladagar orðnir 180 yfir veturinn.
* Skólinn verður settur 25. ágúst, skólaslit 29. maí 2009 og verða 5 starfsdagar yfir veturinn.
* Vetrarfrí. Rætt var almennt um vetrarfrí og eins og undanfarin ár óskar fræðslu- og æskulýðsnefnd ekki eftir að vetrarfrí verði næsta vetur.
* Kennarastundir. Kennarastundum næsta vetur fækkar um átján kennslustundir.  Munar þar mest um nýbúakennsluna sem ekki verður næsta vetur.
* Fjöldi nemenda. Að öllu óbreyttu mun nemendum fækka úr 64 í 58.
* Fyrirkomulag bekkja. Fyrirkomulag bekkja næsta vetur verður þannig að fyrsti og annar bekkur verða saman, þriðji og fjórði saman, fimmti bekkur sér, sjötti bekkur sér, sjöundi og áttundi bekkur saman og níundi og tíundi saman.
* Starfsmannamál. Kennararáðningum fyrir næsta vetur er lokið.  Ekki hefur verið gengið frá ráðningu í skólavistun.  Álfheiður Þórðardóttir handmenntakennari hefur verið ráðin í handmenntakennslu og í almenna kennslu og Ásta F. Flosadóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri og bjóðum við þær velkomnar. Birna Friðriksdóttir og Valdimar Víðisson hætta og þökkum við þeim fyrir og óskum þeim velfarnaðar.
* Endurmenntun. Kennarar eiga að sinna 150 klukkustundum á ári í endurmenntun. Fundir, ráðstefnur, námskeið, lestur fræðigreina og fleira telst til endurmenntunar. Stefna skólans hefur verið að fá einstaklinga hingað til að vera með námskeið en einnig hafa kennarar farið á ýmis konar námskeið tengd sínum námsgreinum svo eitthvað sé nefnt.

2. Sameiginlegur fundur
* Samvinna skólastiganna. Starfsdagar í leik- og grunnskólanum voru á sama tíma á liðnum skólavetri og virðast foreldrar ánægðir með það fyrirkomulag. Samstarf milli þessara tveggja skólastiga hefur verið farsælt í vetur og má þar nefna danskennslu, sameiginlegan umhverfisdag og leiksýningar. Samvinna milli starfsfólks í skólunum tveimur hefur aukist þennan vetur og má nefna samvinnu kennara í hópefli og sameiginlegan dag skólastiganna í lok maí. Skólastjórar telja að enn frekar megi auka þetta samstarf.

3.  Leikskólahluti
Starf vetrarins
* Fjöldi barna og inntökualdur. Í haust byrjuðu 20 börn í leikskólanum en um miðjan febrúar voru þau orðin 24 talsins. Búið er að færa inntökualdur niður í 12 mánaða og er leikskólinn búinn að breyta ákveðnum hlutum til að geta tekið á móti svo ungum börnum.
* Grænfáni og Lýðheilsustöð. Grænfánaverkefnið gengur vel og er leikskólastjóri bjartsýnn á að hægt verði að sækja um grænfánann á næstu mánuðum. Leikskólinn fékk hól frá Lýðheilsustöð vegna matseðla í leikskólanum.
* Námskeið. Námskeiðsdagur var haldinn með leikskólunum Álfaborg, Álfasteini og Krummakoti og benti leikskólastjóri á mikilvægi þess að halda góðum samskiptum við þá því litlir leikskólar eiga margt sameiginlegt.

Næsta ár
* Aðlögun. Fá börn koma inn í haust og því verður aðlögun í minna mæli sem gerir starfið markvissara því hægt verður að hefja skipulagða dagskrá strax í haust.  Þá er útlit fyrir að börnunum fækki og verði um 19 næsta haust.
* Starfsmannamál. Auglýst hefur verið eftir leikskólastjóra en einnig vantar leikskólakennara.

4. Önnur mál
 Fundardagar fræðslu- og æskulýðsnefndar næsta vetur munu verða 27. ágúst  2008, 26. nóvember 2008, 18. febrúar 2009 og 26. maí 2009.

Fundi slitið kl. 22:15.
Margrét Ösp ritaði fundargerð og samþykkt að hún verði send í tölvupósti til samþykktar.

Fundargerðin samþykkt með tölvupósti.