Fræðslu- og æskulýðsnefnd

30.08.2007 00:00


Mættir voru nefndarmennirnir Ásta F. Flosadóttir, Margrét Ösp Stefánsdóttir og Þorsteinn Friðriksson. Jón Helgi Pétursson boðaði forföll og Sigurlaug Sigurðardóttir sat í hans stað, einnig var Benedikt Sveinsson fjarverandi og ekki náðist að boða varamann.  Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri sat einnig fundinn.
Á fyrrihluta fundar mættu Valdimar Víðisson skólastjóri, Sigríður Sverrisdóttir fulltrúi kennara og Anna Bára Bergvinsdóttir fulltrúi foreldra grunnskólabarna. Seinna bættist við á fundinn Hólmfríður Hermannsdóttir leikskólastjóri. Margrét Ósk Hermannsdóttir fulltrúi starfsfólks leikskóla var fjarverandi og Oddný Jóhannsdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna var einnig fjarverandi. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarstjóra kl. 17:10 og voru gjörðir fundarins eftirfarandi:

Formaður setti fund og gaf skólastjóra orðið.

1. Grunnskólahluti
a) Skólastjóri fór yfir upphaf skólaárs. Hann sagði skólann hafa farið vel af stað.  Í ár eru sex námshópar eins og í fyrra og kemur það vel út. Núna þurfti að bæta við kennara vegna aukinnar nýbúafræðslu. Skólanámskrá verður gefin út bráðlega og verður send á hvert heimili, auk þess sem hún er birt á heimasíðu skólans.
b) Fjöldi ferða skólabíls. Fækkað hefur verið ferðum skólabílsins. Þess vegna hefur nemendum í 1. - 4. bekk í skólaakstri verið boðið upp á 1 klst. gæslu einu sinni í viku, meðan beðið er eftir næstu ferð.
c) Námskeið, skriftarátak og útiskóli. Kennarar fóru á skyndihjálparnámskeið í haust og verður elstu nemendum skólans boðið upp á slíkt hið sama í vetur. Einnig fóru kennarar skólans á fund í Oddeyrarskóla varðandi nýbúafræðslu. Rætt var um skrift hjá nemendum og sagði skólastjóri frá því að skriftarfærni hefur almennt hrakað hjá grunnskólanemendum.  Helsta ástæðan mun vera meiri tölvunotkun og því ætlar Grenivíkurskóli að hafa skriftarátak í skólanum.  Ennfremur verður sú nýbreytni tekin upp á yngsta stigi að hafa sk."útiskóla" á föstudögum en þá verður samþætt kennsla í náttúrufræði, samfélagsfræði og stærðfræði svo eitthvað sé nefnt.
d) Umhverfið og heilsan. Skólastjóri fór yfir Lýðheilsuverkefnið og grænfánaverkefnið og lýsti því hvernig unnið verður að þessum verkefnum í vetur.  M.a. á að leggja mikla áherslu á útiveru og útileiki.  Fram kom ánægja með mötuneyti skólans, en þar verður haldið áfram að vinna í anda Lýðheilsuverkefnisins og stefnt á að fjölga fiskmáltíðum í 6-7 í mánuði.
e) Skilti við umferðargötu skólans. Skólastjóri talaði um mikilvægi þess að fá skilti við skólann sem vekti athygli fólks á því að þarna væru börn í nágrenninu t.d. skilti sem á stæði "börn að leik" eða "skólinn er byrjaður".  Fræðslu- og æskulýðsnefnd beinir því til sveitastjórnar að slíkt skilti verði sett upp við skólann.
f) Bílastæði skólans. Rætt var um bíla á bílastæði skólans og hættuna sem skapast þegar bakka þarf á bílastæðinu. Hugmyndir voru uppi um mögulegan hringakstur til að koma í veg fyrir þessa hættu.  Fræðslu- og æskulýðsnefnd beinir því til sveitastjórnar að kanna leiðir til að auka öryggi barna á og við bílastæði skólans.
g) Skóladagatal ofl. Skóladagatalið er birt á heimasíðu skólans.  Sú nýbreytni er að foreldraviðtölum hefur verið fjölgað, eru nú þrjú yfir veturinn, hvar af eitt viðtalið er foreldramiðað.  Í þessu viðbótarforeldraviðtali gefst foreldrum tækifæri til að hitta umsjónarkennara og ræða t.d. um líðan og félagslega stöðu nemenda, en í þessu viðtali er nemandinn ekki með.

 

2. Sameiginlegur fundur (hófst kl. 17:30)
h) Áfengis- og vímuvarnarnefnd. Ályktun frá Áfengis- og vímuvarnarnefnd kynnt.
i) Aldurstakmark á skemmtanir. Fræðslu- og æskulýðsnefnd leggur það til að grunnskólanemendur fái ekki lengur aðgang að Þorrablóti Höfðhverfinga á þeim forsendum að skemmtunin sé ekki við þeirra hæfi og leggur nefndin það til að aldurstakmarkið verið fært til samræmis við aðrar skemmtanir.
j) Skólamálaþing SÍS. Skólamálaþingið kynnt og verður það haldið 23. nóvember í Reykjavík. Nokkrir nefndamenn sýna áhuga á því að fara, einnig sveitarstjóri og leikskólastjóri.


3. Leikskólahluti
k) Fjöldi barna. 9 börn útskrifuðust í vor og eru nú að hefja nám í Grenivíkurskóla.  2  börn  fluttu til Akureyrar. 22 börn voru í leikskólanum fram að áramótum og 25 til vors.  Nú í vetur eru aðeins tvö fimm ára börn í leikskólanum og 21 barn alls.  Þrátt fyrir færri börn eru stöðugildi nærri þau sömu þar sem yngri börn eru fleiri barngildi en eldri börn.
l) Breytingar á leikskólanum.  Leikskólinn býður nú upp á það að 12 mánaða gömul börn hafi aðgang að leikskólanum, sé á annað borð laust rými. Verið er að útbúa nýjar reglur um inntöku og vistunartíma fyrir þessi ungu börn. Nokkrar breytingar þarf að gera á leikskólanum fyrir þessa þjónustu og er verið að vinna í því. Leikskólastjóri sagði frá því að leikskólinn ætlaði í vetur að leggja áherslu á lífsleikni eða dygðir.  Þessar dygðir sem á að fara að vinna með eru gildi sem við metum og teljum æskileg eins og vinátta, kurteisi, hjálpsemi og tillitsemi.
m) Starfsmannamál. Nokkur hreyfing hefur verið á starfsmannamálum í leikskólanum og má helst nefna að leikskólastjóri leysir áfram af eitt ár í viðbót, tveir nýjir leikskólakennarar byrjuðu í júní, nýr starfsmaður kemur inn í október og nýr starfsmaður í ræstingum byrjaði í maí. Einnig kom leikskólastjóri því á framfæri hvað það er frábært að geta boðið upp á metnaðarfullt starf í góðum leikskóla með vel menntuðu starfsfólki.
n) Kynnisferð. Starfsfólk leikskólans fór til Danmerkur í lok apríl og skoðaði þar þrjá leikskóla. Leikskólastjóri sagði frá því að þetta hefði verið mjög lærdómsrík og fræðandi ferð og að gaman hefði verið að sjá hvernig leikskólastarfið er byggt upp þar.
o) Samstarf leik- og grunnskólans. Eiginlegt samstarf leikskólans og grunnskólans hófst eftir áramót og gekk mjög vel.  Er almenn ánægja með þetta samstarf.
p) Umhverfið. Leikskólastjóri sagði frá því að grænfánaverkefnið væri aftur farið af stað og væri í góðum farvegi.


Fleira var ekki tekið fyrir, samþykkt að fundarritari gangi frá fundargerð og hún verði send til samþykkis í tölvupósti.  Fundi slitið kl. 19:00.

Margrét Ösp Stefánsdóttir ritaði fundargerð.