Fræðslu- og æskulýðsnefnd

12.12.2006 00:00

Fundur hjá grunnskólahluta Fræðslu- og Æskulýðsnefndar 12.12.2006.

Fundurinn var haldin í Grenivíkurskóla og hófst kl. 14.45.  Fræðslu- og æskulýðsnefnd fundar yfirleitt tvisvar á önn. Mættir voru:  Ásta F. Flosadóttir, Jón Helgi Pétursson, Þorsteinn Friðriksson, Margét Ösp Stefánsdóttir og Sigurlaug Sigurðardóttir (varamaður, þar sem Benedikt Sveinsson komst ekki á fundinn).  Áheyrnarfulltrúar voru Anna Bára Bergvinsdóttir, fyrir hönd foreldrafélagsins og Sigrún Kjartansdóttir fyrir hönd kennara Grenivíkurskóla.  Þá sátu sveitarstjóri og skólastjóri Grenivíkurskóla fundinn.

Ásta setti fund og bauð fundarmenn velkomna, gaf svo Valdimari Víðissyni skólastjóra orðið.  Valdimar fór yfir starfið í vetur:

a) Námshópar í Grenivíkurskóla
Skólastarf hefur gengið vel sem af er þessari önn. Fleiri námshópar eru núna en í fyrra, 6 hópar.  Það virðist koma mjög vel út, kennarar og nemendur eru ánægðir og foreldrar eru almennt sáttir við þetta fyrirkomulag.  Ekki er enn ljóst hvernig þessu verður háttað næsta skólaár, enda margir óvissuþættir hvað varðar fjölda nemenda.

b) Verkefni sem skólinn tekur þátt í
Skólinn er þáttakandi í tveimur verkefnum sem kallast Grænfánaverkefni og Lýðheilsuverkefni.  Verkefnin eru sýnilegri nú en áður. Valdimar skólastjóri útlistaði þessi verkefni vel. Meðal annars sagði hann að enn meiri áhersla væri lögð á útivist og hollustu í tengslum við Lýðheilsuverkefnið, einnig að skólinn yrði tekinn út og þá kæmi í ljós hvort við myndum fá grænfánann, sem er alþjóðleg viðurkenning.  Ef við fáum grænfánann verður haldin umhverfishátíð nú á vorönn.  Nokkur umræða fór fram um þessi verkefni og voru fundarmenn almennt jákvæðir.

c) Fjöldi nemenda
Nemendur eru alls 66 í vetur og ef fer sem horfir verða um 70 krakkar í Grenivíkurskóla á næsta skólaári.  Þetta er ánægjuleg þróun.

d) Stærðfræðikennsla
Valdimar skólastjóri sagði frá stærðfræðikennslu á mið- og unglingastigi sem hefur verið þannig háttað að krakkarnir stjórni ferðinni að mestu sjálf í gegnum námsefnið.  Mikil endurskoðun er í gangi varðandi þetta fyrirkomulag og í umræðum kom fram að námsefni á mið- og sérstaklega á unglingastigi er mjög leiðandi og þjónar einstaklingsmiðuðu námi ekkert sérstaklega vel.  Þetta kerfi og námsefni hefur bæði kosti og galla og verið er að fara yfir þetta fyrirkomulag, sérstaklega á mið- og unglingastigi.
 
e) Stuðningur
Stuðningskennsla hefur verið mjög markviss í vetur. Sigríður Sverrisdóttir sér að mestu um stuðninginn og hefur yfirumsjón með skipulagi stuðningskennslunar.  Hún hefur athvarf í Kringlu og stendur til að hún fái betri húsgögn þar inn. Guðfinna Steingrímsdóttir og Lísbet Patrisía Gísladóttir fóru á námskeið um einhverfu og tengja það inn í skólastarfið.
Stuðningur verður áfram á með svipuðu fyrirkomulagi.  Nemendur eru ýmist teknir einir úr kennslustund eða nokkrir saman. Ef nemandi er tekinn einn úr kennslustund er reynt að miða við að hann sé ekki lengur en sem nemur um hálfri kennslustund. Þetta fyrirkomulag gengur vel.

f) Jólafrí
Nemendur fara í jólafrí 15. desember.  Þetta er nokkuð fyrr en í mörgum öðrum skólum, s.s. á Akureyri.  Kennsludögum á haustönn er þjappað meira saman hér og í Grenivíkurskóla er ekkert vetrarfrí. Það er ástæðan fyrir að við erum farin fyrr í jólafrí heldur en margir  aðrir.  Margir foreldrar hafa áhyggjur af of miklu álagi á yngstu nemendurna þessa síðustu daga.  Þetta mál var rætt og Valdimar er ánægður með að fólk hafi skoðanir á skólastarfinu, hann vill taka allar ábendingar og vinna með þær.

g) Framhaldið/Næsta önn
Haldið verður áfram með þessi tvö verkefni (Grænfánaverkefni og Lýðheilsuverkefni) næstu önn. Einu verkefni verður bætt við sem er Heimanámsverkefni. Lögð verður fyrir könnun um þetta verkefni til foreldra og nemenda og verður farið í saumana á heimanáminu í framhaldi af því.
Heimanám nemenda var rætt og vangaveltur um hvernig og hvort þurfi að endurskoða það fyrirkomulag.

h) Mentor kerfi
Mentor kerfi er tölvukerfi fyrir foreldra og munu þeir fá þeir aðgang að því um miðjan janúar. Haldinn verður kynningarfundur á þessu tölvukerfi fyrir foreldra.  Í Mentor sjá foreldrar m.a. stundaskrá barnanna sinna, tilkynningar o.þ.h.

i) Vorönn
Vorönn felur í sér sama fyrirkomulag og hefur verið þessa önn.  Ekki stendur til að stokka upp námshópa, færa til umsjónarkennara eða neitt þvílíkt.

j) Varðandi starfsmannamál
Anna Sigríður Jökulsdóttir er farin í veikindarleyfi um óákveðinn tíma.
Valdimar Víðisson og  Sigríður Sverrisdóttir verða hennar staðgenglar í ráðgjafastarfi og félagsmiðstöð.
Valdimar Víðisson á rétt á fæðingarorlofi feðra.  Hann leggur það til að ekki verði ráðinn skólastjóri í þessa 2-3 mánuði meðan hann er í orlofi. Hann stingur upp á því að deila hluta af verkefnunum með staðgengli skólastjóra og kennurum.  Þetta er í verkahring sveitastjórnar og fræðslunefndar að ákveða. Fræðslunefnd er hlynnt þessu fyrirkomulagi með fyrirvara um ákvörðun sveitastjórnar og athugun hjá SÍ.

k) Samræmd próf
Útkoma úr samræmdum prófum hjá 4. og 7. bekk mun liggja fyrir 13.desember 2006.  Nokkur umræða var um samræmdpróf og gagnsemi þeirra.  Ásta telur það galla hversu mikið samræmdu prófin stýra skólastarfi og tóku Valdimar og Sigrún undir það.

l) Önnur mál
Guðný Sverrisdóttir spurði Valdimar skólastjóra um fjölda lesblindra nemenda, hvort lesblinda sé algengari hér en í grunnskólum hér í kring. Valdimar fer yfir það málefni.  Nú höfum við kennara sem getur lagt fyrir lesblindupróf, í mörgum skólum er vandamálið vangreint og því erfitt að segja hvort hlutfall lesblindra er hærra hér en annarsstaðar, en Valdimar hefur þá tilfinningu samt.  Kennarahópurinn er mjög meðvitaður um þessi mál og Fjölskyldudeildin á Akureyri er ánægð með fyrirkomulag stuðnings hérna. 
 
Anna Bára spurði hvort ekki væri hægt að lagfæra bílaplanið við skólann, oft skapist hætta þegar bílar bakka á planinu.  Rætt var um möguleika á því að útbúa nk. rennu svo bílar þurfi ekki að snúa við á planinu.  Valdimar benti á að reynt er að takmarka mjög að bílum sé lagt á efra planið því börnin leika sér mikið á því.  Rætt var um öryggi barna á leið úr og í skólann og Guðný upplýsti að gangstétt meðfram götunni upp að skólanum, sé á þriggja ára áætlun og reiknað með henni 2008.

Fleira var ekki rætt.  Fundi slitið.
Fundargerð send til fundarmanna í tölvupósti og samþykkt eftir lítilsháttar lagfæringar.

Margrét Ösp ritaði fundargerð.