Fræðslu- og æskulýðsnefnd

15.09.2016 00:00

Fræðslu og æskulýðsnefnd – 12 fundur

Fundur í fræðslu- og æskulýðsnefnd haldinn 15.09.2016 klukkan 17:00 í Grenivíkurskóla. Fundinn sátu Sigurbjörn Þór Jakobsson, Þórunn Lúthersdóttir og  Auður Adda Halldórsdóttir. Fjóla Stefánsdóttir boðaði forföll og sat Elín Jakobsdóttir fundinn í hennar stað. Þorsteinn Þormóðsson mætti ekki.  Einnig sátu fundinn, Ásta Flosadóttir, Margrét Ósk Hermannsdóttir, Þröstur Friðfinnsson, Íris Þorsteinsdóttir og  Inga María Sigurbjörnsdóttir sem áheyrnarfulltrúar fyrir grunnskóla, leikskóla, sveitastjóra og kennara. Sigurbjörn setur fundinn og stjórnar honum. Þórunn ritar fundargerð og situr sem áheyrnarfulltrúi fyrir foreldrafélag.

Málefni leikskóla:

Margrét fór yfir barnastöðuna í leiksskólanum. Mikið af litlum börnum og því töluvert álag á starfsfólki sérstaklega eftir hádegi. Starfsmenn sem loka leikskólanum fá aðeins greitt til klukkan 16 en síðasti starfsmaður kemst yfirleitt ekki út úr húsi fyrr en rúmlega 16 og þyrfti að gera einhverjar úrbætur á því. Miklar starfsmannabreytingar eru búnar að vera og álag á starfsfólk mikið í sumar. Rætt var að faglært starfsfólk leikskólans á rétt á undirbúningstíma í hverri viku og Margrét er að skoða það að fá afleysingarmanneskju til að koma inn í leikskólann svo þær fái þennan tíma. Starf vetrarins verður að mestu leyti hefðbundið en verið er að innleiða stefnuna Jákvæðan aga og munu starfsdagar vera nýttir í þetta að hluta. Nýr starfsmaður Steinunn sem er íþróttafræðingur ætlar að taka elstu börnin í sund og íþróttir og einhver íþróttastarfsemi verður innan leikskólans. Kolbrún verður með skólahópinn í vetur. Sonja talmeinafræðingur kemur einu sinni í mánuði en 3-5 börn eru núna hjá henni í þjálfun. Elva Haraldsdóttir hjá Fjölskyldudeild Akureyrar verður innan handar með sérkennslu og önnur mál. Búið er að bregðast við flestum athugasemdum sem bárust frá Heilbrigðiseftirlitinu í vor en eftir á að laga undirlagið við rólurnar. Margrét kynnti fyrir nefndinni skýrsluna Aðalskoðun leiksvæðis, nefndin kynnti sér málið og farið var yfir úrbætur.

Margrét Hermannsdóttir og Íris Þorsteinsdóttir yfirgáfu fundinn.

Málefni grunnskóla:

Ásta kynnti fyrir nefndinni hluta Grenivíkurskóla í skýrslunni Aðalskoðun leiksvæðis, nefndin kynnti sér málið og farið var yfir úrbætur. Stærsti útgjaldaliðurinn í úrbótum er að lagfæra þarf undirlag við leiktækin. Ásta fór yfir helstu mál í skipulagi skólastarfs. Kennslustundir eru 196 talsins sem er það sama og var síðasta vetur. Nemendur eru 48 talsins og er þeim skipt í fjóra námshópa. Gert er ráð fyrir áframhaldandi fækkun á nemendum næstu árin. Stuðningskennsla verður 15 tímar og 3 tímar í auka íslensku. Starfsmannamál eru í góðu lagi, Heiða Pétursdóttir var ráðin inn sem nýr kennari og hún mun einnig sjá um skólavistun í vetur. Hún fer í fæðingarorlof í byrjun næsta árs og ekki er komið á hreint með hvernig afleysing fyrir skólavistun verður háttað. Jóna er í fæðingarorlofi og Kristín leysir hana af í eldhúsinu. Haldið verður áfram með nokkur kjarnaverkefni í vetur, Olweus, Grænfánann og Heilsueflandi skóli. Teymi mun hafa það hlutverk að móta læsisstefnu skólans og mynduð verða teymi sem munu halda utan um verkefni skólans til að tryggja að verkefnið sé virkt í skólastarfinu. Sonja talmeinafræðingur kemur reglulega og Hjalti sálfræðingur kemur einu sinni í mánuði og er til viðtals fyrir nemendur. Ekki er starfandi náms- og starfsráðgjafi við skólann einsog áður hefur komið fram og hefur verið að því fundið. Verið er að skoða hvernig hægt er að bæta það og þá mögulega með samstarfi við Valsárskóla. Áfram verður samstarf við aðra aðila í hreppnum svo sem leikskólann, ELLA og Grenilund. Breyting verður á samræmdu prófunum í ár þannig að nú verða þau tekin í gegnum tölvu. Upplýsingar vantar um hvernig á að standa að þessum prófum og mikið er óljóst um framkvæmd þeirra.
Vinna við skólanámskrá er enn í vinnslu en stefnt er að birta hana í vetur. Ásta lagði fyrir nefndina uppkast af starfsáætlun skólans. Verið er að vinna í að taka í notkun matsviðmið aðalnámskrár í námsmati. Samningur um skólaakstur hefur verið framlengdur en til skamms tíma þar sem aðeins eru 7 krakkar í akstri í dag og gert er ráð fyrir áframhaldandi fækkun. Félagsmiðstöð verður starfandi í vetur og sér Bjarni um hana, stefnt er á að fara á Samfés og skólaþing Alþingis. Rætt var hvort nemendur sem eru á fyrsta ári í framhaldsskóla gætu tekið þátt í einhverju af starfi félagsmiðstöðvarinnar og verður það tekið fyrir á kennarafundi. Nefndin leggur til að nemendur sem útskrifast á undan jafnöldrum sínum fái aðgang að félagsmiðstöðinni. Skýrslan um Ytra mat Grenivíkurskóla var lögð fram fyrir nefndina, nefndin kynnti sér málið. Gera þarf umbótaáætlun í kjölfar ytra matsins og verður hún að vera tilbúin í nóvember. Ásta mun senda uppkast af umbótaáætluninni til nefndarinnar þegar þar að kemur. Helstu athugasemdir sem skólinn fékk voru að skólaráð þarf að vera starfandi, viðurlög við brotum á skólareglum þarf að birta, námskrá skólans er ekki tilbúin og enginn námsráðgjafi er starfandi.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl 19:00