Atvinnu- og þróunarnefnd

08.02.2012 00:00

10. fundur atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps haldinn 8. febr. 2012 Kl. 17:00

Mættir voru: Bára, Benedikt, Birna, Guðni, Jóhann, Oddný, Valgerður og Guðný sveitarstjóri.

l.  Sveitarstjóri gerði grein fyrir því að Sigurður, sem verið hefur formaður nefndarinnar, hafi sagt sig úr nefndinni og væri fluttur úr sveitarfélaginu. Sveitarstjórn hafi tilnefnt Jóhann Ingólfsson í hans stað.

2.  Kosning formanns. 
Oddný Jóhannsdóttir var kjörin formaður og Bára E. Jónsdóttir varaformaður.
Ákveðið var að sveitarstjóri stjórnaði fundi að þessu sinni og að rifjuð yrði upp ýmis mál sem nefndin hefur haft til umfjöllunar. Ritari las 2 síðustu fundargerðir.

3.  Spyrnubrautin.
Starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins voru tilbúnir til að aðstoða við undirbúning málsins. Það er hjá Stefáni Þengilssyni til skoðunar.

4. Galleríið.
Birna greindi frá starfseminni í sumar.  Hún taldi reynsluna jákvæða en að ekki hafi verið mikil eftirspurn eftir vörum. Sennilega selt fyrir um 170 þúsund. Vel kæmi til greina að halda áfram í ár. Fram kom hjá Jóhanni að Sænes hafi styrkt Galleríið um 150 þúsund á þessu ári.

5.  Upplýsingamiðstöðin.
Almenn ánægja var með þetta framtak.  Fram kom að leiðrétta þurfi kortið sem er upp á vegg í miðstöðinni. Talið mikilvægt að hafa frekari upplýsingar um gönguleiðir í hreppnum.

6. Fuglaskoðun.
Valgerður gerði grein fyrir samtali sem hún hafði átt við Sverri Thorsteinsen um málið. Ekki eru til miklar upplýsingar um tegundir fugla við Bárðartjörn og á því svæði. Sverrir sagðist þó eiga einhverjar upplýsingar sem hann gæti tínt saman og látið okkur fá ef hann kæmi á fund nefndarinnar. Ákveðið að vera í sambandi við hann áfram. Einnig ákveðið að Guðni tali við Árna Dan sem mun vera áhugasamur um fugla. Einnig ákveðið að Birna tali við Víði Örn Jónsson sem er áhugasamur um fugla og leiti upplýsinga.

7. Tilatian.
Bára hafði talað við Jón Kjartan hjá Samherja um málið. Hann taldi að Íslendingar ættu meiri möguleika í dýrum tegundum.

8. Atvinnuástandið.
Fram kom að fullmannað sé í flestum fyrirtækjum í hreppnum.  Áhugi á að fá ný fyrirtæki til staðarins, hugsanlega með kaupum. Rætt um ýmiss konar bakvinnslu en nokkuð hefur verið unnið í þeim málum af hálfu sveitarstjóra. Nefndarmenn beðnir um að hafa augun opin gagnvart nýjungum. Fjölgað hefur um 16 manns í hreppnum á milli ára og eru íbúar nú 350.

9. Heimasíða.
Ánægja var með nýja heimasíðu en nokkuð hefur verið um tæknilega erfiðleika við að koma henni í loftið. Talað var um að nýta síðuna í ímyndarvinnu og markaðssetningu fyrir sveitarfélagið. Hugmynd kom upp um að nýta Facebook einnig í slíkum tilgangi. Ákveðið var að fara yfir skoðunarkönnun sem gerð var á síðasta ári og snéri að íbúum sveitarfélagsins á næsta fundi.

10. Önnur mál.
a) Jóhann greindi frá að s.l. haust hafi verið stofnað fyrirtækið Astería og ætti Sænes 47 % í því. Meðeigendur eru Viðar og Rúnar Júlíussynir. Markmið fyrirtækisins er að halda utan um upplýsingar sem tengjast heilbrigðiskerfinu.
b) Næsti fundur ákveðinn 28. mars.

Fundi slitið kl. 18:05.