Atvinnu- og þróunarnefnd

27.10.2010 00:00

Fundargerð atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps

2. nefndarfundur í atvinnu- og þróunarnefnd Grýtubakkahrepps, haldinn í Gamla skólanum
27. okt. 2010: Allir nefndarmenn mættir.

Dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar.
2. Staða mála hvað varðar „miðbæjarhugmyndir"
3. Skapandi hugarflug
4. Önnur mál.

1) Fundargerð síðasta fundar samþykkt samhljóða.

2) Formaður hafði rætt við verslunarrekendur í Jónsabúð. Þau eru opin fyrir að skoða breytta nýtingu verslunarrýmisins.  Áhugi er á í nefndinni að nýta húsið frekar sem er í eigu Reita en er leigt af heimamönnum.  Rætt um að heimamenn þyrftu að eignast húsið og þannig skapaðist  grundvöllur til að fara út í breytingar. Ákveðið að formaður og ritari verði fulltrúar nefndarinnar í frekari vinnslu málsins.
Nefndur var sá möguleiki að reisa smáhýsi á reitnum neðan við Grenilund. Fram kom hjá sveitarstjóra að Árni Ólason væri að vinna að skipulagsmálum á svæðinu.
Ákveðið að beina því til sveitarstjórnar að leita eftir heimild til að selja léttvín og bjór í búðinni í afmörkuðu rými.
Heimir greindi frá því að hann hafði rætt við Sparisjóðinn með rekstur farfuglaheimilis í huga í Hamraborg og á Miðgörðum. Fram kom að Sparisjóðurinn vildi helst selja Miðgarða. Ljóst að þörf er á rekstraraðila ef að slíkt á að koma til greina.

3) Undir þessum dagskrárlið var rætt hvað gera mætti til að gera atvinnulífið fjölbreyttara og fjölga fólki í sveitarfélaginu.  Nefnt var að aðkoma inn í þorpið mætti vera skemmtilegri. Skilti vantaði við Víkurskarð með upplýsingum um Grýtubakkahrepp. Þá vantaði fleiri íbúðir. Gefa þyrfti út kynningarbækling, bæta tjaldstæðið og að skortur væri á veitingasölu. Snyrta þyrfti til víða þó að í aðalatriðum væri sveitarfélagið snyrtilegt. Bæta þyrfti smábátahöfnina og athuga um frekari fjölbreytni á sviði safna. Bæta þyrfti aðstöðu útivistarfólks, ekki síst snjósleðafólks og gönguhópa og var Kaldbakur nefndur í því sambandi. Sundlaugina þyrfti að bæta og bjóða upp á sjóstöng. Rætt var um hvort nýta mætti frekar frístundafólkið til jákvæðra hluta og einnig hvort gera mætti út á að Grenivík væri umhverfisvænt þorp og hvað það innibæri. Einnig var rætt um íbúajákvæðni. Í framhaldi af þessari umræðu komu fram hugmyndir um að ráða ferðamálafulltrúa/kynningarfulltrúa, og var bent á möguleika á fjármögnun í gegnum Vaxtarsamning Eyjafjarðar. 
Fleira sem nefnt var: Göngustígar, bleikjueldi, verkefnið „Beint frá býli", markaður á laugardögum, parhús fyrir eldri borgara, opin hús íbúa sem selja veitingar, betri nýting frystihússins, opið hús í fyrirtækjum, nýting minkafitu í iðnaðarframleiðslu.

4) Ákveðið að næsti fundur verði 24. nóv. nk. kl 17:00.