Atvinnu- og þróunarnefnd

21.09.2010 00:00

Fundargerð atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps

1. fundur atvinnu- og þróunarnefndar Grýtubakkahrepps var haldinn í Gamla skólanum þriðjudaginn 21. sept. 2010 kl. 17.
Mættir voru: Sigurður Jóhannsson, Benedikt Sveinsson, Birna K. Friðriksdóttir, Guðni Sigþórsson, Heimir Ásgeirsson, Oddný Jóhannsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Auk þeirra sat Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri fundinn.

Dagskrá fundarins:

1. Kosning formanns
2. Kosning ritara
3. Kynning á starfssviði nefndarinnar
4. Önnur mál

Guðný Sverrisdóttir setti fundinn og tók fyrir 1. mál á dagskrá.
Uppástunga kom um að Sigurður yrði kjörinn formaður og var það samþykkt samhljóða.

Sigurður tók við stjórn fundarins og tók fyrir 2. mál á dagskrá.
Uppástunga kom um að Valgerður yrði kjörin ritari og var það samþykkt samhljóða.

Formaður tók 3. dagskrármál á dagskrá og taldi rétt að byrjað yrði á að vinna upplýsingar um það hvað við höfum og hvað við höfum ekki í sveitarfélaginu með tilliti til þess hversu áhugavert er að setjast hér að. Þetta gæti verið eins konar gagnagrunnur og einnig væri þörf fyrir upplýsingabækling. Fram kom að 56 nemendur væru í grunnskólanum en skólinn gæti tekið á móti um 90 börnum.
Guðný taldi að nefndin þyrfti að vinna að eins konar hugmyndabanka þar sem fram kæmi allt sem gæti talist jákvætt fyrir sveitarfélagið. Líka það sem ekki væri á okkar valdi að framkvæma. Engu að síður gæti sveitarstjórn komið á framfæri slíkum upplýsingum við rétta aðila.
Fram kom að sveitarfélagið á aðild að Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.
Þá kom fram að fólk vantaði til starfa bæði á Grenilund og á frystihúsið. Ástæða þess að ekki fæst fólk væri m.a. húsnæðisskortur.  Sveitarstjóri velti fyrir sér hvað sveitarfélagið gæti leyft sér að eiga af íbúðum. Einnig hvort rétt væri að „lokka" fólk til að setjast að í sveitarfélaginu með einhvers konar gylliboðum. Talað var um hvort rétt væri að kanna hug eldra fólks til að flytjast í minna húsnæði, t.d. litlar sérhæfðar íbúðir og selja stóru húsin.
Fyrirspurn kom fram um það hvort einhver verkefni væru á teikniborðinu hjá sveitarstjórn sem vörðuðu ný störf. Formaður greindi frá því að unnið hafi verið að því að koma á fót verksmiðju þar sem framleiddur væri innrennslisvökvi í æð, slík verksmiðja hefði skapað um 15 störf með heildarkostnaði upp á 800 milljónir króna.  Eftir útboð frá ríkiskaupum hafi innflutningur á vörunni lækkað um helming og það tilboð sem var gert af undirbúningshópnum var hafnað. Sambönd væru fyrir hendi og rétt að halda málinu vakandi og skoða möguleika á mun minni verksmiðju sem gæti fallið að framleiðslu PharmArctica. 
Fram kom að mikilvægt væri að horfa á allt sveitarfélagið þegar svipast væri um eftir húsnæði undir atvinnurekstur. Í sveitinni væri eitthvað um ónotuð útihús sem gætu hentað fyrir ýmsa starfsemi.
Miklar umræður spunnust í kringum skort á „ miðbæ" á Grenivík með upplýsingamiðstöð og hugsanlegum almenningsgarði. Áhugi var á að athuga hvort verslunarrekendurnir í Jónsabúð vildu breytingar. Mönnum þótti augljóst að þau þyrfti ekki allt það húsnæði sem verslunin er rekin í og að það gæti hentað þeim að minnka við sig og hleypa annarri starfsemi inn í húsið. Formaður sagðist taka að sér  að færa málið í tal við verslunarrekendurna. Rætt var um þjónustu frá ÁTVR og ætlaði sveitarstjóri að athuga hvar það mál stæði en fyrirspurnir höfðu áður verið sendar um það mál.
Frekari umræður spunnust um miðbæjarhugmyndirnar. Allir voru sammála um að það þyrfti að vera áhugavert að stoppa og hugsanlega borða nesti og hleypa börnum í leiktæki. Nefnt var hvort áhugavert væri að nýta svæðið neðan við Grenilund og hugsanlega reisa þar smáhýsi. Þar gæti einnig verið aðstaða fyrir handverksfólk. Fundarmenn töluðu um að Hamraborgin væri vannýtt og Miðgarðar enn frekar. Hugmynd kom fram um að breyta þessum tveimur húsum í farfuglaheimili. Heimi var falið að athuga um þennan möguleika. Sænes á Hamraborgina en Sparisjóðurinn á Miðgarða. Unnið er að aðalskipulagi fyrir Grenivík þar sem miðbæjarhugsunin er höfð í huga að sögn sveitarstjóra.

Ekkert tekið fyrir undir 4. dagskrárlið.

Ákveðið að halda næsta fund 27. október kl. 17 á sama stað.

Fundi slitið.