- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 8. desember 2025, fjárhagsáætlun fyrir árin 2026 – 2029. Reksturinn verður áfram með óbreyttu sniði þó umfang aukist jafnt og þétt. Gert er ráð fyrir tekjuafgangi af samstæðu A og B hluta upp á tæpar 25 millj.kr. á árinu 2026. Ný útkomuspá fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir tekjuafgangi upp á 6 millj.kr. en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 22 millj.kr. Breytingin fellst aðallega í miklum hækkunum launa vegna nýrra kjarasamninga en tekjur hækka þó einnig eitthvað á móti.
Fjárhagsstaða Grýtubakkahrepps er áfram afar traust og skuldir hóflegar. Á árinu 2026 er áætlað að eignfærð fjárfesting brúttó nemi 109,7 mkr. Helstu liðir eru að lokið verður við malbikun og frágang Lækjarvalla sem frestað var í ár. Lokið verður við þriðja og síðasta áfanga glugga- og útihurðaskipta í skólanum. Á nokkrum árum hefur þá verið farið í viðamikið fyrirbyggjandi viðhald á skólanum og íþróttahúsinu með þak- og gluggaskiptum. Það er afar mikilvægt að láta þessar stóru eignir sveitarfélagsins ekki ekki liggja undir skemmdum og gott að sjá fyrir endann á þessum verkum.
Undirbúningur að stækkun leikskólans er nú hafinn og ef vel gengur er stefnt að því að hefja framkvæmdir næsta sumar. Stækkun leikskólans er langstærsta verkefnið á áætlun næstu ára, en hvenær því verður lokið mun að einhverju leyti ráðast af íbúaþróun. Reiknað er með að til nokkurrar lántöku komi vegna stækkunar leikskólans. Fjölgun íbúa hefur ekki gengið eins hratt og áætlað var, en spennandi verður að sjá hvernig þróun verður næstu árin, einkum þegar hótelið opnar á Höfðanum, en reiknað er nú með að það verði á síðari hluta næsta árs.
Af öðrum verkefnum á áætlun næstu ára má nefna endurnýjun torgsins fyrir framan Grýtu/Jónsabúð, nýjan vinnubíl/buggybíl fyrir áhaldahús, Endurnýjun snyrtinga á neðri hæð í skólanum, lyftu í skólann, ýmis verkefni í malbikun og gatnagerð og hreinsistöð fyrir fráveitu. Áfram verður aukið við búnað slökkviliðs, endurnýjað og bætt við í sundlaug og líkamsrækt, stefnt að því að koma lyftu í Gamla skóla, auk ýmissa smærri verkefna. Þó mikið sé gert á hverju ári bætist stöðugt við lista verkefna sem þarf að sinna og einnig sem gaman væri að fara í.
Á árinu sem er að ljúka var stærsta framkvæmdin á vegum hreppsins að skipta um þak á íþróttahúsinu og annar áfangi var kláraður í gluggaskiptum í skólanum. Unnið var að ýmsum smærri verkefnum í stofnunum hreppsins og þá verður að nefna umhverfislistaverkið Sókn sem sett var upp á Gömlu bryggju í sumar. Með því má segja að komin sé ágæt heildarmynd á svæðið kringum Útgerðarminjasafnið sem er orðið staðarprýði.
Gjaldskrár Grýtubakkahrepps hækka almennt um 3,5% 1. janúar 2026. Vistunargjöld í leikskóla hækka þó ekki, en þau hafa nú verið óbreytt síðan 1. janúar 2016. Leikskólagjöld eru nú orðin mjög lág í samanburði við önnur sveitarfélög, sem fylgir fram stefnu sveitarstjórnar um fjölskylduvænt samfélag. Sorphirðu- og úrgangsgjöld hækka um 12% og er vonast til að með því styttist í að endar nái saman í málaflokknum, svo sem vera ber að lögum.
Áætlun áranna 2027 – 2029 miðast við hækkanir verðlags skv. spám á bæði tekjur og gjöld, um 2,5 til 2,7% árlega. Ekki er reiknað með tekjuauka af nýjum byggingum né skatttekjum vegna fjölgunar íbúa. Framkvæmdaáætlun miðar hins vegar við nokkra fjölgun íbúa og ef sú fjölgun gengur ekki jafn hratt eftir má reikna með að einhverjar framkvæmdir frestist um tíma.
Annars eru helstu forsendur fjárhagsáætlunar þessar:
Fjárhagsáætlun áranna 2026 – 2029 í heild er að finna í þessu skjali.