Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2023- 2026

Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 12. desember 2022, fjárhagsáætlun fyrir árin 2023 – 2026.  Reksturinn verður áfram með sama sniði og er gert ráð fyrir tekjuafgangi af samstæðu A og B hluta upp á 10,7 millj.kr. á árinu 2023.  Þrengt hefur að rekstri sveitarfélaga síðustu ár, einkum hafa launahækkanir verið langt umfram verðlag og hlutfall launa af heildargjöldum hefur hækkað mikið síðustu árin.

Fjárhagsstaða Grýtubakkahrepps verður áfram traust og skuldir mjög hóflegar þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar.  Á árinu 2023 er áætlað að eignfærð fjárfesting brúttó nemi 63,7 mkr.  Helstu liðir eru undirbúningur að gatnagerð, hefja á uppbyggingu á skólalóð, lokið verður við frágang eftir uppsetningu nýrra safntanka fyrir vatnsveituna og endurnýja á einnig safntank fyrir frístundabyggðina í Sunnuhlíð.  Þá er ætlunin að endurnýja dráttarvél hreppsins, mála Gamla Skóla og sinna ýmsu smærra.  Gert er ráð fyrir nýrri lántöku á árinu upp á 30 mkr. vegna framkvæmda.

Á liðnu ári voru helstu fjárfestingar að settir voru upp og tengdir nýjir safntankar fyrir vatnsveituna, snyrtingar á efri hæð Grenivíkurskóla voru endurnýjaðar sem og forstofan, þar sem m.a. var settur gólfhiti.  Þá var aukið nokkuð við tækjabúnað Slökkviliðs Grýtubakkahreppps.  Lán var tekið á árinu hjá Lánasjóði sveitarfélaga upp á 25 mkr.  Engin íbúð var seld á árinu.  Ákveðið var að bjóða eina íbúð til leigu fyrir nýjan starfsmann Grenilundar og var það auglýst með góðum árangri, en 3ja manna fjölskylda flutti í íbúðina frá Akureyri.  Áfram er þó stefnt að því að fækka íbúðum í eigu hreppsins eftir því sem hagkvæmt þykir að selja og auka með því möguleika á frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis síðar eftir atvikum.

Gjaldskrár hækka almennt um 4% á árinu 2023.  Er það verulega undir verðlagsþróun.  Vistunargjöld í leikskóla hækka þó ekki, en þau hafa nú verið óbreytt síðan 1. janúar 2016.  Er það umtalsverð raunlækkun á tímabilinu og fylgir þannig fram stefnu sveitarstjórnar um fjölskylduvænt samfélag. Gjaldskrá sundlaugar og líkamsræktar hækkar um 8 til 10%, en aðstaða í sundlaug hefur gjörbreyst með fjárfestingum síðustu ára.  Sorphirðugjöld hækka almennt um 33.33% og er gerð nánari grein fyrir því í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.  Námsgögn verða áfram frí við Grenivíkurskóla.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar eru þessar:

  • Miðað er við að sveitarfélagið verði með svipaðan rekstur næstu ár og verið hefur og veiti sambærilega þjónustu áfram.
  • 2023 er áætlað miðað við fyrirliggjandi gögn, t.d. kjarasamninga og áætlanir frá Fjársýslu ríkisins, HMS og Jöfnunarsjóði.
  • Áætlun 2024 – 2026 gerir ráð fyrir 2% verðlagshækkun á ári og samsvarandi hækkun á bæði tekjur og gjöld
  • Fjárfestingaáætlun tímabilsins, sem og áætlun um sölu eigna, er reiknuð inn í áætlun og hefur áhrif á t.d. afskriftir og fjármagnsliði, en ekki er þó gert ráð fyrir væntum söluhagnaði af seldum eignum í áætlun tekna.
  • Veruleg uppbygging er hafin á Grenivík, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis.  Reikna má með bæði fjölgun íbúa og auknum skatttekjum næstu árin vegna þessarar uppbyggingar, ekki er þó tekið tillit til þess í tekjuáætlun, áætlanagerðin er því fremur hófstillt að þessu leyti.

Fjárhagsáætlun áranna 2023 – 2026 í heild er að finna í þessu skjali