Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2018 - 2021

Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum 14. desember 2017, fjárhagsáætlun fyrir árin 2018 – 2021.  Reksturinn er í föstum skorðum og er gert ráð fyrir tekjuafgangi 2018 upp á 9,3 millj.kr.

Fjárhagsstaðan er traust, skuldir mjög hóflegar og fara lækkandi þrátt fyrir fjárfestingar.  Á næsta ári er áætlað að eignfærð fjárfesting nemi 53 mkr.  Þar vegur þyngst bygging leiguíbúða við Kirkjuveg, en af öðrum framkvæmdum má t.d. nefna að áformað er að endurnýja kurl í sparkvelli, leggja nýjan dúk á gólf íþróttahúss og einnig verður farið í nokkurt viðhald á götum.

Á yfirstandandi ári hefur verið fjárfest fyrir nálægt 70 mkr., langstærsti hlutinn er bygging leiguíbúðanna, en af öðru má nefna tæknibúnað í sundlaug, nýjan sláttutraktor og framkvæmdir við Kirkjuveg.  Þrátt fyrir þessar miklu framkvæmdir hefur ekki þurft að koma til lántöku á árinu, en reiknað er með einhverri lántöku á næsta ári vegna íbúðanna.

Gjaldskrár verða almennt óbreyttar á næsta ári.  Sérstaklega er vert að nefna að vistunargjöld í leikskóla og skólavistun verða óbreytt þriðja árið í röð.  Námsgögn verða áfram frí við Grenivíkurskóla og frístundastyrkur hækkar úr kr. 15.000 í kr. 25.000 á næsta ári.  Er þetta til marks um stefnu sveitarstjórnar um fjölskylduvænt samfélag og þjónustu í fremstu röð fyrir íbúana.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar eru þessar:

  • Miðað er við að sveitarfélagið verði með svipaðan rekstur næstu ár og verið hefur og veiti sambærilega þjónustu áfram.
  • 2018 er áætlað miðað við fyrirliggjandi gögn, t.d. kjarasamninga og áætlanir frá Fjársýslu ríkisins, Þjóðskrá og Jöfnunarsjóði.
  • Áætlun 2019 – 2021 gerir ráð fyrir 2% verðlagshækkun á ári og samsvarandi hækkun á bæði tekjur og gjöld
  • Fjárfestingaáætlun tímabilsins, sem og áætlun um sölu eigna, er reiknuð inn í áætlun og hefur áhrif á t.d. afskriftir og fjármagnsliði.

Fjárhagsáætlun áranna 2018 – 2021 í heild er að finna í þessu pdf-skjali.