Til hamingju Vigdís Finnbogadóttir

Vigdís Finnbogadóttir, mynd af www.forseti.is
Vigdís Finnbogadóttir, mynd af www.forseti.is

Það er ánægjulegt á þessum undarlegu tímum að halda í dag upp á níræðisafmæli okkar ástsælasta forseta.  Við sem munum aðdraganda og kjör Vigdísar, minnumst þess einstaka tíma með sérstakri ánægju og virðingu.  Ég hafði ekki alveg náð aldri til að kjósa, en taldi mig skila mínu með því að aka ömmu minni á kjörstað til að kjósa Vigdísi.  Mamma vann einarðlega fyrir kosningabaráttu Vigdísar á Húsavík og maður hreifst óhjákvæmilega með.

Kjör Vigdísar hefur orðið stærra með árunum og það í heimssögulegu tilliti.  Ekki síst er það fyrir hennar hæfileika, gáfur og fágæta persónutöfra.  Hún breytti viðhorfum kynslóða og lagði nýjar brautir fyrir næstu kynslóðir.  Mér er til efs að þjóðin standi í meiri þakkarskuld við annan Íslending, a.m.k. núlifandi.  Ég ætla að hún muni fá eigi minni sess í sögu þjóðarinnar en þeir Þorgeir Ljósvetningagoði og Jón Sigurðsson.

Einn af eftirminnilegum hápunktum kosningabaráttunar var framboðsfundur Vigdísar í íþróttaskemmunni á Akureyri.  Enginn kom þaðan ósnortinn og gott að minnast þeirrar stemmningar sem ríkti þar og eftir fundinn.  Þá komum við út í sumarið full bjartsýni og sú bjartsýni var ekki tilefnislaus.  Ekki veitir okkur af bjartsýni núna, þó erfiðara sé að benda á tilefni, en vorið er þó framundan með öllum sínum töfrum og við trúum á að gott sumar fylgi.

Ein minning frá þessum fundardegi er mér þó sterkari en aðrar.  Þingeyingar fjölmenntu inneftir á fundinn og söfnuðust saman í mikla bílalest til Akureyrar.  Ég fór á minni Cortinu með fullan bíl af konum frá Húsavík.  Þegar komið var ofan af Vaðlaheiði var lestin orðin alllöng.  Við gatnamótin út á Svalbarðsströnd beið einnig nokkur bílalest sem hafði komið utan að. 

Af einhverjum ástæðum stöðvaði lestin sem kom ofan af heiði þarna við gatnamótin.  Ég vissi ekki fyrr til en Volkswagen bjallan á undan stöðvaði og bilið á milli knappara en æskilegt hefði verið.  Ég get enn séð fyrir mér þegar afturstuðarinn á bjöllunni hvarf að því er virtist inn undir framendann á Cortinunni og beið þess að finna þegar bílarnir snertust.  Það slapp þó til og varð mér þá litið í spegilinn og sá þá ekki betur en næsti bíll á eftir væri við það að skella aftan á mig!  Það slapp einnig og þessi lukka er mér minnisstæð og táknræn fyrir daginn. 

Það var sannarlega lukka þjóðarinnar að kjósa Vigdísi.  Heill Vigdísi Finnbogadóttur á þessum tímamótum, við fögnum með henni auðmjúk og þakklát í hjarta.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri