Stórt er alltaf betra - pistill

Íslenskur embættismaður á ferð í Brussel
Íslenskur embættismaður á ferð í Brussel

Hugsum okkur að Evrópusambandið skipi nefnd til að fara yfir stöðu og framtíð þjóðríkja Evrópu.  Í nefndina eru skipaðir embættismenn í Brussel, einn sóttur til Sviss fyrir Eftalöndin og einn til Eistlands til að gæta hagsmuna smáríkja.  Þá eru nefndarmenn með bakgrunn víða að í Evrópu þannig að allra sjónarmiða er vel gætt.

Til að gera langa sögu stutta er niðurstaða nefndarinnar að til að ríki geti talist sjálfbær og geti verið sjálfstæð þjóðríki, þurfi þau að hafa að lágmarki eina milljón íbúa.  Engin von sé til að smærri einingar séu starfhæfar eða geti veitt íbúum viðunandi þjónustu.  Samkvæmt þessu verður Ísland að velja hvort það vill sameinast Noregi, Danmörku eða kannski Bretlandi.

Hvað segjum við Íslendingar þá?  Þvílíkt bull, auðvitað getum við verið sjálfstæð þjóð.  Við eigum góðar auðlindir við bæjardyrnar, við erum dugleg og klár þjóð með öfluga innviði.  Við veitum íbúum alla þjónustu svo sem best má verða og íbúar eru hæstánægðir með hana.  Við erum landfræðilega afskekkt og hentum ekki til sameiningar með þjóðum langt í burtu.  Okkar fjárhagur er auk þess mikið betri en flestra stóru ríkjanna í Evrópu og við erum og getum vel verið sjálfstæð þjóð meðal þjóða.

Nei, nei, hvaða vitleysa, segir Evrópa.  Þið getið ekki einu sinni varið ykkur, enginn her!  Þið eigið enga almennilega háskóla, ráðið ekki við að reka heilbrigðiskerfi og sendið fólk í stórum stíl til náms í Evrópu.  Stjórnkerfið ykkar er óburðugt, illa mannað og ræður ekki við vandaða stjórnsýslu, uppfullt af ættarhagsmunum og vinaklíkuspillingu.  Eftilitsstofnanir vinna ófaglega og engin alvöru þekking til staðar í flóknum málum.  Dómstólar veikburða og dæma eftir vindum sem blása um þjóðfélagið, þið kunnið ekki einu sinni að byggja hús, þau standa lek og mygluð!  Að ekki sé minnst á vegakerfið.  Engin leið er að viðhalda fagþekkingu lækna í slíku fámenni, mikið betra að fljúga fólkinu utan til flókinna aðgerða.  Nei, ykkur mun mikið betur farnast að sameinast einhverri alvöru þjóð sem hefur burði til að skapa þegnunum sómasamlegan aðbúnað, öryggi og þjónustu.  Þrjú hundruð þúsund hræður eiga engan möguleika á að reka þjóðfélag, með sterku stjórnkerfi og nútíma innviðum.

Þetta er ekki rétt, segjum við þá.  Við erum í samstarfi þjóða um öryggismál.  Við erum einnig í samstarfi í EES og vinnum náið með Norðulöndunum.  Skólar geta verið góðir þó þeir séu ekki stórir og við eigum frábæra heilbrigðisstarfsmenn, sérfræðinga á ýmsum sviðum og erum í fremstu röð í hagnýtingu margskonar tækni.  Samstarf og samvinna sjálfstæðra ríkja er rétta leiðin.  Við sækjum líka menntun, verslun og ýmsa þjónustu til annarra landa eins og best hentar. Ef við sameinumst öðru ríki, mun opinberum störfum á Íslandi stórfækka, þjónusta við íbúana mun verða lakari og sinnt af minni staðþekkingu.  Búsetuskilyrði á landinu munu versna og mikil hætta á að í framtíðinni muni bresta á flótti fólks til Evrópu.  Ísland verður þá bara verstöð, óbyggð eyja fyrir ferðamenn til ævintýraferða.  Þetta er glórulaus stefna því hér eru búsetuskilyrði góð og fólk býr hamingjusamt að sínu, hefur góð tengsl við náttúruna og lifir í friðsemd hvert með öðru.  Samkennd er mikil þegar á bjátar og við getum sko vel staðið stolt meðal þjóða.

Þá segja Evrópubúar;  Þvílíkir vitleysingar sem búa á þessari eyju.  Skilja ekki augljósa kosti stærðarinnar, þröngsýnir og illa menntaðir.  Það var greinilega enn meiri nauðsyn en við héldum að koma þeim undir stjórn alvöru þjóðríkis!  Við skulum samt miða við 250 þús. sem lágmark í nokkur ár til að friða þá.

Þetta var dæmisaga um hroka.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri