Stór tímamót – bólusetning hafin

Fjóla og Guðbjörg gefa Kristínu og Unni fyrstu covid-skammtana
Fjóla og Guðbjörg gefa Kristínu og Unni fyrstu covid-skammtana

Í gær var stór dagur þegar byrjað var að bólusetja gegn Covid-19 veirunni.  Jón Torfi yfirlæknir mætti á Grenilund með bóluefni og fengu allir heimilismenn bólusetningu.  Seinni skammtur verður gefinn eftir þrjár vikur, fullt ónæmi á síðan að nást á vikunum þar á eftir.  Vonandi verður í framhaldinu hægt að opna fyrir almennar heimsóknir á Grenilund á ný, en þar hafa verið takmarkanir í gildi síðan í mars. 

Það ríkti mikil gleði þegar vinkonurnar Stína og Unnur fengu fyrsta skammtinn.  Sprautu sem gefur þeim og íbúum Grenilundar von um að lífið verði aftur eðlilegt og allir ættingjar, afkomendur og vinir megi koma í heimsókn á ný.

Þrátt fyrir þessar góðu fréttir er afar mikilvægt að allir haldi vöku sinni og gæti að ítrustu sóttvörnum áfram, enda veiran hvergi nærri farin úr okkar samfélagi.  Þó við höfum verið heppin hér í síðari bylgjum, hefur hún ítrekað verið við þröskuldinn og töluvert af íbúum og starfsfólki hér á svæðinu þurft í sóttkví.  Ekkert má því út af bera en ef við leggjumst áfram öll á eitt, sjáum við vonandi fyrir endann á þessu ástandi á næstu mánuðum.

Þetta ár hefur verið sérkennilegt og reynt á marga, við fögnum því nýju ári og trúum að það verði með öðru og venjulegra sniði þegar á líður.  Við þökkum fyrir hve vel hefur gengið að halda okkar samfélagi gangandi á þessu ári, stöndum saman og förum varlega áfram um sinn.

Gleðilegt ár!