Póstþjónusta - bókun sveitarstjórnar

Sveitarstjórn fjallaði á fundi sínum í gær um fyrirhugaðar breytingar á þjónustu Póstsins við íbúa hreppsins.  Af því tilefni bókaði sveitarstjórn eftirfarandi:

Í febrúar sl. boðaði Pósturinn breytingar á póstþjónustu á Grenivík og sagði upp samningi við þjónustuaðila sinn á staðnum, Jónsabúð, með 6 mánaða fyrirvara. Sveitarstjórn óskaði þegar eftir fundi með innviðaráðherra um framtíð póstþjónustu og var sá fundur í lok mars. Voru þar reifaðar ýmsar hugmyndir sveitarstjórnar að breytingum á póstþjónustu með það að markmiði að bæta póstþjónustu en jafnframt að gera hana hagkvæmari.

Í mars sendi sveitarstjórn Byggðastofnun, að ósk stofnunarinnar, ítarlega umsögn um boðaða breytingu á þjónustu póstsins. Einnig fór erindi á stjórnarformann Póstsins og þingmenn kjördæmisins voru upplýstir um stöðu mála. 

Skemmst er frá að segja að í engu hefur verið kvikað frá upphaflegum hugmyndum Póstins um þjónustuskerðingu við íbúa Grenivíkur og munu þær koma til framkvæmda nú 1. september skv. frétt á heimasíðu fyrirtækisins. Eftir því sem næst verður komist, hefur Byggðastofnun þó ekki enn lagt blessun sína yfir boðaðar breytingar.

Sveitarstjórn harmar og er raunar verulega hugsi yfir því að lítil sem engin viðbrögð hafa komið frá ofangreindum aðilum við erindum hennar. Sveitarstjórn furðar sig á því áhugaleysi og ráðaleysi sem einkennir málið, enda um að ræða mikilvæga þjónustustofnun á vegum ríkisins. Erfitt er að sjá hvernig skerðingar á póstþjónustu, bæði áður fram komnar og nú boðaðar, samrýmast opinberri stefnu um þjónustu til handa íbúum landsins.

Byggðastefna og boðaður réttur íbúa landsins til samsvarandi þjónustu óháð búsetu er lítils virði sem orð á blaði, ef framkvæmdin er á allt annan veg.