Pistlar, nóvember 2011

Þessa dagana er verið að vinna að fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir árið 2012. Eins og endranær er erfitt að láta enda ná saman en vonandi þarf ekki að skera mikið niður. Fram að þessu hafa ekki verið gerðar kreppufjárhagsáætlanir hjá Grýtubakkahreppi og vonast ég til að við losnum einnig við slíkt núna. Já, ég held því fram að við höfum ekki verið með kreppufjárhagsáætlanir fram að þessu. 

Engum hefur verið sagt upp, aðeins hefur vinnuhlutfall verið minnkað hjá örfáum. Engin breyting hefur orðið í mötuneytum stofnana sveitarfélaganna, eins árs börn eru tekin inn í leikskóla og erum við þar  minnug umræðu í Reykjavíkurborg. Framlög til Tónlistarskóla Eyjafjarðar hafa aukist ár frá ári og flestir komast þar að sem vilja en langur biðlisti er víða eftir tónlistarnámi í stærri sveitarfélögum. Yfir 11 % íbúa sveitarfélagsins eru í tónlistarnámi í dag og er það með því mesta sem gerist á landinu. Þar fyrir utan voru framkvæmdir í Grýtubakkahreppi á þessu ári með því mesta sem gerist og það án þess að taka ný lán. Framkvæmdir við gámaplan eru langt komnar. Sænes er verkkaupinn en Grýtubakkahreppur kemur til með að leigja planið af Sænesi.
Í byrjun mánaðarins heimsótti sveitarstjórnin nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu. Slíkar heimsóknir eru mjög áhugaverðar og skemmtilegar. Ánægjulegt er að vita hve öflug fyrirtæki við höfum hér og var þó ekki nema lítið brot af fyrirtækjunum heimsótt nú. Vonandi gefst tækifæri til að heimsækja fleiri fyrirtæki síðar.
Síðastliðið fimmtudagskvöld var Brúskvöld á vegum karlaklúbbsins Hallsteins. Brús er spil sem er sérstakt fyrirbrigði og ekki vitað til að sé spilað annarsstaðar en út með Eyjafirði að austan og vestan. Ýmis sérkennileg nöfn fylgja spilinu eins og langabrúnka, naglajórunn, póstar og svo er hægt að vera á ránni auk þess að beiða upp. Þetta gamla góða spil má ekki glatast og íbúar þessara svæða þurfa að sjá til þess.
Í vetur verður handverkshópurinn með opið hús á Miðgörðum og verður fyrst opið  miðvikudagskvöldið 16. nóvember nk. frá kl. 20:00.  Þar getur fólk komið saman með hannyrðir sínar og  föndur eða aðeins til að spjalla. Heitt verður á könnunni og vonandi láta sem flestir sjá sig.
Með von um áframhaldandi sumarauka.
Grenivík í nóvember 2011, Guðný Sverrisdóttir.