Pistill, september 2006

Þá er nú blessað sumarið á enda og haustið tekið við með því sem fylgir, svo sem skólagöngu, göngum og réttum og berjatínslu.  Hver árstími hefur sinn sjarma og jafnvel má sjá sjarma yfir stórhríðardögum á vetrum.

Árið 2008 þurfa öll sveitarfélög á landinu að hafa lokið við gerð aðalskipulags.  Í Grýtubakkahreppi er aðeins til aðalskipulag fyrir Grenivík og nær það aðeins til ársins 2007.  Því liggur fyrir að mikil skipulagsvinna bíður nýrrar sveitarstjórnar á næstu misserum.  Slíkt krefst mikillar vinnu en er jafnframt gefandi því hér er um stefnumótun að ræða.

Sveitarstjórn er að hefja samningaviðræður við Vegagerðina varðandi girðingar meðfram þjóðvegi frá Víkurskarði til Grenivíkur.  Ef af verður þarf að gera það í góðri sátt og samstarfi við bændur.

Nú líður að því að taka þarf ákvörðun um hvort friðlýsa eigi skagann milli Eyjafjarðar og Skjálfanda.  Þótt samráð sé bannorð í dag væri afar gott ef Þingeyjarsveit og Grýtubakkahreppur gætu verið samstíga í þessu máli.  Ég býst við að sitt sýnist hverjum í þessu en ekki er það málinu til framdráttar að nú fer Óbyggðanefnd að ríða hér um héruð.

Ákveðið hefur verið að á Snæfellsnesi og í Eyjafirði verður gerð tilraun með að útrýma mink.  Verkefnið á að taka yfir þrjú ár og kostar u.þ.b. 150 milljónir kr.  Leggja á áherslu á gildruveiði.  Að þessum þremur árum liðnum verður árangurinn metinn og ákveðið um framhaldið.

Þá eru það sorpmálin.  Akureyrarbær er búinn að segja sig úr Sorpeyðingu Eyjafjarðar frá og með næstu áramótum.  Ekki er vitað hvað tekur við.  Ein leiðin er að semja við Húsvíkinga en þar er ný og fullkomin brennslustöð.  Eitt er þó víst að kostnaður við förgun sorps á eftir að hækka og það verða ekki aðrir en þeir sem sorpið kemur frá sem greiða þann kostnað.

Grenivík í september 2006, Guðný Sverrisdóttir