Pistill, október 2013

Október 2013 Fréttir af stofnunum Grýtubakkahrepps: Nú er skólastarfið komið á fullt í Grenivíkurskóla.  Því miður fækkaði börnum nokkuð frá því í vor. Kom það til af því að færri komi  í 1. bekk en útskrifuðust úr 10. bekk og einnig fluttu 2 fjölskyldur í burtu.  Við megum ekki vera svo eigingjörn að engir geti flutt frá okkur, þjóðfélagið er þannig í dag að margir velja að eyða ekki lífinu öllu á sama stað. Hinsvegar syrtir í álinn ef engir koma í staðinn en því fer betur að fólki finnst það ákjósanlegur valkostur að búa í þessu sveitarfélagi. Eins og kom fram á heimasíðu Grýtubakkahrepps fengum við grænfánann í 4 sinn á dögunum. Grænfánaverkefnið okkar hefur vakið athygli um allt land. Fulltrúi skólans hélt fyrirlestur í Hörpu fyrir skömmu og á næstunni fara 2 unglingar og segja frá verkefninu á umhverfisþingi í Reykjavík. Einnig hefur verkefninu verið lýst á fundi á Stórutjörnum. Það er gaman þegar við stöndum okkur það vel að eftir því er tekið.

Í leikskólanum Krummafæti fjölgar börnunum stöðugt þótt lítið sé um fæðingar í sveitarfélaginu um þessar mundir. Stefnir í að börnin verði 32 eftir áramót. Má segja að þá sé skólinn alveg pakkaður en lengi má þó bæta einum við. Á Grenilundi gengur lífið sinn vanagang. Í dag er verið í öllum rýmum en heimilinu er úthlutað 5 hjúkrunarrýmum, 3 dvalarrýmum og 1 skammtímaplássi sem er greitt fyrir eins og það væri hjúkrunarrými. Vistmenn eru þar skemmri tíma, oft eftir aðgerðir á sjúkrahúsi. Í áhaldahúsinu eru Guðni og Siggi tilbúnir að taka á móti vetrinum sem vonandi kemur ekki alveg strax. Ein af þeirri þjónustu sem ekki má bregðast er snjómoksturinn. Við höldum því fram að sú þjónusta sé í góði lagi hjá okkur þótt við vitum vel að ýmsir sérfræðingar eru til í sveitarfélaginu sem álíta að snjómokstur eigi að fara fram á annan veg. Sundlauginni var lokað í fyrra fallinu í ár. Kom það til af því að fáir komu í sund, að meðaltali var 1 á dag og er of kosnaðarsamt að hafa laugina opna fyrir ekki meiri aðsókn.

Við skulum svo vona að veturinn fari vel í okkur. Grenivík í október 2013, Guðný Sverrisdóttir