Pistill, október 2012

Þá er farið að gnauða á glugga og vetur konungur farin að láta á sér kræla. Fyrsta  vetrardag var glæsileg árshátíð Hestamannafélagsins, Búnaðarfélagsins og Hallsteins. Skemmtiatriðin voru hrein snilld og trúlega best að hafa ekki fleiri lýsingarorð um þau eða útskýringar. Það er orðin skemmtileg hefð að vera með þessa árshátíð 1. vetrardag og virðist þessi venja mælast vel fyrir hjá félagsmönnum.

Mál málanna hér í Grýtubakkahreppi og Grenivík eru búferlaflutningar. Um 10 fjölskyldur hafa skipt um húsnæði síðustu vikur og mánuði. Ekki er þó svo gott að allar þessar 10 fjölskyldur komi nýjar á staðinn en samt er þó nokkuð um að ungt fólk sé að koma heim aftur og er það hrein fjölgun. Einnig hefur eldra fólk farið í minna og hentugra húsnæði og skipt þá við það sem yngra er. Það var ánægjulegt að fylgjast með hringekjunni sem fór af stað fyrir um mánuði, þegar 7 fjölskyldur hófu búferlaflutninga og það leiddu einir flutningar af öðrum. Silla Kristjáns byrjaði og endirinn á hringekjunni var hjá  Heiðu Péturs og fjölskyldu sem gat rétt komið sér inn í nýja húsið að Lækjarvöllum 14 áður en hún varð léttari. Margir spurja hverju þetta sæti og vil ég þakka þetta góðu atvinnustigi, góðri þjónustu og ímyndarvinnu sem sveitarfélagið fór í fyrir skömmu.

Nú er svo komið að sárlega vantar íbúðarhúsnæði og er Grýtubakkahreppur að skoða alla möguleika sem koma til greina varðandi byggingarform enda er sveitarfélagið nýbúið að selja tvær íbúðir, aðra að Miðgörðum 14 og hina að Lækjarvöllum 1a.

Einnig má geta þess að Darri ehf. hefur hafið viðbyggingu að Hafnargötu 1 þar sem húsnæðið er sprungið utan af vaxandi starfsemi.

Með von um að veturinn reynist góður. Grenivík í október 2012, Guðný Sverrisdóttir