Pistill, október 2010

Næstkomandi mánudag verður lokið við endurskoðun á fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir árið 2010. Útlit er fyrir að A hluti sveitarsjóðs verði gerður upp með hagnaði þ.e. aðalsjóður, eignasjóður og þjónustumiðstöð en B hlutinn verði gerður upp með tapi en það eru veitustofnanirnar, Grenilundur og leiguíbúðir og munar þar mest um halla á leiguíbúðum. 

Einnig er að hefjast gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011. Eitt er víst að erfitt verður að koma þeirri fjárhagsáætlun saman hallalausri þar sem engar greiðslur verða úr Jöfnunarsjóði vegna hækkunar á tryggingargjaldi og aukaframlag úr Jöfnunarsjóði verður lagt niður. Auk þess ef uppsjávarveiðar dragast saman mun það hafa áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins.
Framkvæmdum við íþróttaföll Magna á Grenivíkurhólum er lokið að mestu leyti. Grýtubakkahreppur styrkir framkvæmdina um 7 milljónir kr. á þessu ári. Var þetta þörf framkvæmd og mikilvæg fyrir hið góða íþróttastarf hér í sveit. Samhliða bættri aðkomu að Grenivíkurþorpinu væri gaman að lagfæra aðkomu að íþróttavellinum.
Um næstu áramót verður mikil breyting á sorpförgun hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Allt almennt sorp sem ekki fer í endurvinnslu verður flutt vestur í Húnavatnssýslu til urðunar. Þessu fylgir mikill kostnaður þannig að mikils er um vert að sem allra minnst verði flutt vestur. Enn er sveitarstjórn ekki búin að taka ákvörðun um fyrirkomulag sorpmála á næsta ári en trúlega þurfa allir framvegis að flokka sorpið og lífræni hlutinn verður einnig flokkaður frá og farið með hann í Moltu á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit. Bæta þarf umgengni á gámasvæðinu til muna og flokka rétt í opnu gámana. Sennilega verður ekki viðunandi ástand á gámasvæðinu nema svæðið verði girt af og haft opið á ákveðnum tímum. Innan skamms verður sveitarstjórnin komin með ákveðnar línur í málið sem verða kynntar. 

Grenivík í október 2010, Guðný Sverrisdóttir.