Pistill, október 2009

Þessa dagana hefur sveitarstjórn Grýtubakkahrepps verið að endurskoða fjárhagsáætlun Grýtubakkarhepps 2009. Þegar lagt var upp með áætlunina fyrir ári voru blikur á lofti og erfitt að átta sig á hvort hún gengi eftir, sérstaklega hvað tekjuhliðina varðar. Raunin varð sú að tekjuhliðin virðist standast og meira en það. Útsvarið verður sennilega hærra en reiknað var með og útgjöld standast að mestu. Á næstu vikum verður svo unnið að fjárhagsáætlun 2010. Enn er ekki kominn rammi að áætluninni en margir óvissuþættir eru fyrir hendi ekki síst hvað varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Endurreisn fiskvinnslu á Grenivík potast áfram og vonast er til að vinnslan geti farið af stað strax upp úr áramótum. Búið er að kaupa flæðilínu og fleira sem verið er að setja upp þessa dagana. 

Eins og fram kemur á heimasíðu Grýtubakkahrepps er Pharmarctica að setja á markaðinn nýja barnalínu og innan skamms kemur einnig á markaðinn ný andlitslína.  Einnig hefur Pharmarctica náð samkomulagi við Samkaup um að vörur Pharmarctica verði seldar í öllum verslunum Samkaupa. Töflusláttarvél er væntanleg innan skamms þannig að í framtíðinni mun fyrirtækið hefja töfluframleiðslu. Þessar nýjungar verða vonandi mikil búbót fyrir fyrirtækið.
Síðasta vetrardag var árshátið búnaðarfélagsins, hestamannafélagsins Þráins og karlaklúbbsins Hallsteins haldin. Var þetta hin besta skemmtun, skemmtiatriðin afar skemmtileg og sýndu sumir alveg nýja takta og hæfileika. Þetta segir manni að það væri mikil synd ef þessar góðu skemmtanir leggðust af.

Grenivík í október 2009, Guðný Sverrisdóttir.