Pistill, maí 2007

Þá eru Alþingiskosningarnar um garð gengnar, sumir ánægðir með úrslitin og aðrir síður ánægðir.  Ríkisstjórnin hélt naumlega velli og eftir er að sjá hvort breytingar verða á.  Í það minnsta vonum við að það komi góð ríkisstjórn sem verður hliðholl landsbyggðinni.

 

15. maí voru opnuð tilboð í lagningu hitaveitu á Grenivík. Tilboð bárust frá tveimur aðilum í verkið.  Reiknað er með að framkvæmdum ljúki 1. október nk.  Mikið rask verður á Grenivík meðan á framkvæmdum stendur þannig að gera má ráð fyrir að þorpið verði ekki eins snyrtilegt í sumar og það er yfirleitt.  

Stofnað hefur verið sjálfseignarfélag um beitningarskúrinn Hlíðarenda sem nefnist Útgerðarminjasafnið á Grenivík.  Stofnaðilar eru Grýtubakkahreppur og Sænes ehf.  Stofnfé er kr. 2.000.000,- auk beitningarskúrsins Hlíðarenda.  Enn vantar töluvert fé til að dæmið gangi upp. Vonandi verður hægt að ganga frá umhverfinu umhverfis Hlíðarenda í sumar og koma upp sýningu þar næsta sumar.

Tilfinnanlega vantar háhraðatengingu í sveitarfélagið.  Þegar Síminn var seldur voru settir 2,5 milljarðar af Símapeningunum í svonefndan Fjarskiptasjóð og var verkefni hans m.a. að koma upp háhraðatengingu í dreifbýli þar sem markaðsbrestur er og háhraðatenging ekki til staðar.  Vonandi finnst farsæl lausn innan tíðar þar sem háhraðatenging er stórt búsetu- og byggðamál.  Komið hefur til greina að leggja ljósleiðara um leið og hitaveitan er lögð en kostnaður við það er 15 - 20 millj. kr. Ekki er eðlilegt að kostnaðurinn lendi á Grýtubakkahreppi en hver á þá að borga brúsann? Þegar Síminn var seldur var því haldið fram að ekki væri hægt að aðskilja grunnnetið frá öðrum hluta netsins.  Margt er skrýtið í kýrhausnum þar sem nú er búið að stofna fyrirtæki sem heitir Míla og er einungis grunnnetið.

Með von um góðar stundir.

Grenivík í maí 2007, Guðný Sverrisdóttir.