Pistill, júní 2013

Sunnudaginn 16. júní var opinn dagur í Grýtubakkahreppi. Þetta er nýbreytni sem ekki hefur verið reynd áður. Dagurinn tókst í alla staði vel og fjöldi fólks heimsótti þá staði sem buðu heim en þeir voru 11 talsins. Vonandi verður þetta reynt aftur að ári og þá  verða trúlega  fleiri með, en eins og gengur, þegar skammur fyrirvari er, voru ýmsir sem ekki höfðu tök á að stökkva upp í vagninn í þetta skipti.

Þá er umræða um sérstaka veiðigjaldið búið að skjóta upp kollinum einu sinni enn sem kemur m.a. til af frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á sérstaka veiðigjaldinu. Yfir 30 þúsund manns eru búnir að skrifa undir áskorun um að fari fram atkvæðagreiðsla um málið.  Í mínum huga er þetta mál mikið stærra. Ég lít svo á að hér sé um  auðlindagjald að ræða sem á þá að leggjast á allar auðlindir landsins og umræðan á að snúast um það og hversu mikið afgjald af auðlindunum á að renna  til þjóðarinnar.  Það þarf t.d. að ákveða hvert auðlindagjaldið verður af Orkuveitu Reykjavíkur og þá er hægt að gera sér t.d. grein fyrir hvað orkureikningarnir hækka þar á bæ. Þegar verðmiði er svo kominn á allar auðlindir Íslands mætti fara fram kosning.  Ósagt skal láti hvort undirskriftunum mundi fækka eitthvað við þessa málsmeðferð.
 Á 17. júní útskrifuðust sex ungmenni sem stúdentar úr okkar sveitarfélagi. Ekki er ég með tölfræðina alveg á hreinu en ég efast um að svo margir stúdentar hafi fyrr útskrifast í einu úr Grýtubakkahreppi. Þetta er allt efnilegt fólk sem á framtíðina fyrir sér. Þau halda á góðum spilum  og vonandi koma þau til með að kunna að spila úr þeim. Hér með er þeim óskað innilega til hamingju og bjartrar  framtíðar.

Góða veðrið upp á síðkastið hefur kætt margan manninn og er kærkomið eftir langan og strangan vetur. Þrátt fyrir hlýindin eru enn skaflar niður að sjó og virðast lítið hopa þrátt fyrir gott veður. Það er umhugsunarvert hvað gróðurinn er fljótur að koma til í Eyjafirði,  að segja þar sem ekki er kal, og er fyrr á ferðinni en víða annarsstaðar þar sem snjóalög voru horfin löngu fyrr eða voru jafnvel ekki til staðar. Þetta segir okkur að það er gott að búa í Eyjafirði þrátt fyrir allt.
Með von um gæfuríkt sumar.
Grenivík í júní 2013,
Guðný Sverrisdóttir