Pistill, febrúar 2009

Enn herjar kreppan þótt vissulega skelli hún víða á með meiri þunga en hjá okkur í það minnsta enn sem komið er. Við vitum ekki hvenær botninum er náð en trúlega er eitthvað í að við förum að spyrna okkur upp aftur. Það er sárt að sjá hve grátt íslensk þjóð hefur verið leikin af örfáum mönnum sem hafa sogað peninga út úr þjóðfélaginu.

Ýmsar skemmtanir hafa verið í sveitarfélaginu að undanförnu sem mikill sómi er af. Fyrst skal nefna þorrablótið okkar sem haldið var 31. janúar sl. Þar sannaðist virkilega að góð heimafengin skemmtidagskrá er besta skemmtunin. Þorrablótið á Grenilundi 12. febrúar sl. var fjölmennt og vel heppnað. Snæbjörn vinur okkar frá Nolli, einn af íbúum Grenilundar, kvaddi okkur í þann mund sem þorrablótið var að hefjast. Það má segja að hann hafi farið með mikilli reisn yfir móðuna miklu, kominn í sparifötin og Bjössi sonur hans mættur til að vera með honum á þorrablótinu. Sú samfylgd tók aðra stefnu.  Blessuð sé minning Snæbjörns!  Síðastliðna helgi hélt félagsmiðstöðin Gryfjan sem er félagsmiðstöð unglinga hér í sveit, leiksýningu. Verkið „Heimskunnar dáð" var sýnt sem samið var af krökkunum í félagsmiðstöðinni. Sýningin var alveg frábær og  bæði krökkunum og Gunnari Erni forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar eru færðar bestu þakkir fyrir framtakið og góða skemmtun.

Símey á Akureyri hélt námskeið um mannrækt hér á Grenivík og er því nú nýlokið. Tíu sóttu námskeiðið sem var í alla staði hið besta. Ég hvet sem flesta til að fara ef námskeiðið verður haldið aftur. Slíkt námskeið gerir okkur að betri mönnum og hafa ekki allir þörf fyrir að bæta sig?

Miðvikudaginn 25. febrúar nk. fer ég í mína árlegu ferð til Kanaríeyja. Ég verð komin aftur til starfa 12. mars nk. Sigrún Björnsdóttir og Fjóla oddviti munu leysa þau mál sem upp kunna að koma á meðan ég er erlendis.

Með góðri kveðju,
Grenivík í febrúar 2009, Guðný Sverrisdóttir.