Pistill, febrúar 2008

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur ákveðið að fara í aðalskipulagsgerð fyrir sveitarfélagið. Fyrirhugað er að semja við Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónsson og félaga ehf. um að vera okkar ráðgjafar við verkið. Vinna við skipulagsgerð er bæði tímafrek og kostnaðarsöm en jafnframt er hún áhugaverð þar sem með henni er verið að ákveða stefnumótun fyrir sveitarfélagið næstu áratugina.

 

Mikið hefur verið rætt og ritað um svokallað Laufásmál upp á síðkastið. Við vitum öll að það er mikill missir fyrir sveitarfélagið ef fólkið í Laufási þarf að flytja úr sveitarfélaginu og því ekki undarlegt að sú bón sé lögð fram  að allra leiða sé leitað til að sátt finnist í málinu og Laufásfólkið fái að búa þar áfram. Í þessu máli eins og mörgum öðrum gildir hið fornkveðna að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Á dögunum var ég svo óheppin  að detta í hálkunni og fótbrjóta mig. Það er ekkert stórmál því fæstir komast í gegnum lífið án einhverra skakkafalla. Þetta atvik er ofarlega í mínum huga, m.a. þar sem allir eru boðnir og búnir til að aðstoða mig og hér með er þakklæti komið á framfæri. Eins er dvölin á FSA ofarlega í huga mínum. Ef sú þjónusta sem ég fékk þar endurspeglar gæði heilbrigðiskerfisins á Íslandi þá erum við ekki á flæðiskeri stödd. Allt starfsfólkið sem þjónustaði mig á sjúkrahúsinu átti það sammerkt að hafa mikla þjónustulund og vera starfi sínu vaxið. Kærar þakkir fyrir mig.

Frá 26. febrúar til 13. mars nk. verð ég í hinu árlega vetrarfríi mínu. Á meðan mun Sigrún á skrifstofu Grýtubakkahrepps og Fjóla oddviti leysa þau mál sem upp kunna að koma. Það kemur svo í ljós þegar heim verður komið hvernig fóturinn fer með sig.

Grenivík í febrúar 2008, Guðný Sverrisdóttir.