Pistill, febrúar 2007

Nú er þorri að kveðja með öllum sínum þorramat og þorrablótum.  Síðastliðið fimmtudagskvöld var þorrablót á Grenilundi.  Um 60 manns mættu og var mikil gleði og mikið fjör.  Hér með er starfsfólki Grenilundar þakkað fyrir vel skipulagt og skemmtilegt þorrablót.

Þorrablót Grýtubakkahrepps var haldið 27. janúar sl.  Um 240 manns mættu og skemmtu sér konunglega.  Þengillinn var veittur í 8. sinn.  Þengillinn er heiðursviðurkenning sem veitt er einu sinni á ári einhverjum einstaklingi, hópi einstaklinga, félagi eða fyrirtæki í Grýtubakkahreppi sem hefur á einhvern hátt unnið byggðalagi sínu gagn með því að efla atvinnulíf þess eða menningarlíf eða með því að vekja athygli á því á jákvæðan hátt, t.d. með afrekum sínum á sviði íþrótta og lista.  Frá upphafi hafa 4 einstaklingar og 6 fyrirtæki hlotið Þengilinn.  Fram til þessa hefur aðeins einn Þengill verið afhentur á ári en í ár voru þeir þrír.  Það voru systkinin Frosti, Sjöfn og Gjögur sem hlutu Þengilinn og er þeim hér með óskað til hamingju.  Útgerðirnar þrjár hafa örugglega átt mjög stóran þátt í að gera sveitarfélagið byggilegt.  

Þann 25. janúar sl. voru Landssamtök landeigenda á Íslandi stofnuð.  Tilgangur félagsins er að berjast fyrir því að eignarréttur landeigenda að jörðum þeirra og landareignum sé virtur í þjóðlendumálinu.  Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hefur gert kröfur í margar jarðir í Grýtubakkahreppi.  Það er ofar mínum skilningi að það sé hægt að gera jarðir með athugasemdalausum þinglýstum landamerkjabréfum að þjóðlendu.  Þannig hefur þó Hæstiréttur dæmt og því er ekkert öruggt í þessum málum.

Nú hefur sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkt fjárhagsáætlun fyrir 2007 og þriggja ára áætlun fyrir 2008-2010.  Ekki er reiknað með neinum stórframkvæmdum en nóg er af viðhaldsverkefnum sem þarf að fara í. Stærsta framfaramálið í sveitarfélaginu um þessar mundir er hitaveitan.  Ágætlega miðar að leggja Reykjaveitu og bendir ekkert til annars en að hún verði komin til okkar fyrir áramót eins og ráð var fyrir gert.

Frá 28. febrúar til 15. mars verður undirrituð í sínu árlega vetrarfríi.  Starfsmenn Grýtubakkahrepps koma til með að sinna því sem þarf og leysa úr á meðan.  Einnig mun oddvitinn, Fjóla Stefánsdóttir verða þeim til halds og trausts.

Grenivík í febrúar 2007, Guðný Sverrisdóttir.