Pistill, febrúar 2006

Þorrinn er liðinn og Góan heilsaði okkur á konudaginn, sl. sunnudag, með hreint yndislegu veðri.  Vélsleðamenn voru ekki seinir á sér og fjölmenntu á svæðið og er óhætt að segja að Grenivíkurfjall og Kaldbakur hafi iðað af lífi við kjöraðstæður; nógur snjór og frábært veður.

Nú er deiliskipulag fyrir frístundabyggð ofan Grenivíkur á lokastigi og verður skipulagið auglýst innan fárra daga.  Á skipulaginu eru 19 lóðir á svæði sem nefnt verður Sunnuhlíð. Nú þegar eru 9 lóðir fráteknar en ekki fer fram formleg úthlutun fyrr en afgreiðslu á deiliskipulaginu er lokið.

Á fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps þann 23. janúar sl.var þriggja ára áætlun fyrir sveitarfélagið samþykkt.  Á næstu þremur árum mun megnið af  þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru fara í endurbætur á skólamannvirkjunum.  Einnig þarf að fara að huga að aðalskipulagi fyrir Grýtubakkahrepp en í dag er aðeins til aðalskipulag fyrir Grenivík sem nær til ársins 2007.

Á sama fundi var skipuð ferðamálanefnd fyrir Grýtubakkahrepp.  Í erindisbréfi eru verkefni nefndarinnar eftirfarandi: * Gera tillögur um hvernig efla megi ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. * Gera tillögur um endurbætur á skýlum Grýtubakkahrepps. * Gera tillögur um merkingu eyðibýla í Grýtubakkahreppi. * Gera tillögur um endurbætur á tjaldstæði Grýtubakkahrepps. * Gera tillögur um fjármögnun á þeim verkefnum sem eru utan fjárhagsáætlunar Grýtubakkahrepps. * Nefndin skilar tillögunum til sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps fyrir 15. mars nk.

Í nefndina voru skipaðir Heimir Ásgeirsson, formaður, Sigurbjörn Höskuldsson og Gísli Gunnar Oddgeirsson.  Ljóst er að við þurfum að nýta betur þau tækifæri sem skapast við veg upp í Grenivíkurfjall og aukin ferðamannastraum á svæðið.

Nú á næstunni er undirrituð að fara í sitt árlega vetrarfrí og stendur það til 15. mars.  Munu starfsmenn skrifstofu Grýtubakkahrepps og oddviti leysa úr þeim verkefnum sem upp kunna að koma meðan á fríinu stendur.

Með von um góða líðan með hækkandi sól.

Grenivík í febrúar 2006. Guðný Sverrisdóttir.