Pistill, desember 2013

Desember 2013.

Þegar líða tekur að jólum reikar hugurinn víðar en hann gerir ella. Við reynum að hafa það samfélag sem við búum í gott og vonandi eiga sem fæstir um sárt að binda nú um jólin. Gott samfélag er ekki hægt að setja á verðmiða.
Nú er hönnun á Túngötu 3 (Jónsabúð) í fullum gangi. Fyrirhugað er að hefja framkvæmdir í janúar 2014 en reiknað er með að auk Jónsabúðar verði Sparisjóður Höfðhverfinga og skrifstofa Grýtubakkahrepps staðsett í húsnæðinu.

Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps fyrir árin 2014 til 2017 var samþykkt 9. desember sl. Fjárhagsáætlun var afgreidd með 858 þús. afgangi. Er reiknað með að tekjur samstæðunnar hækki um 2,8% en gjöld um 5,2% þannig að hér er ekki um sparnaðaráætlun að ræða. Helstu framkvæmdir eru lagfæring á smíðastofu grunnskólans, undirlag undir útileiksvæði við skólann, undirbúningur að lagfæringu á Gamla skóla, auk kaupa á tölvubúnaði fyrir skólann.
Fyrir jólin kom út Brot úr byggðarsögu – Mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár, en það er Björn Ingólfsson fyrrum skólastjóri Grenivíkurskóla sem ritaði. Mikill fróðleikur er í bókinni og vonandi lýsir hún vel þeim atburðum og fólki sem rutt hafa brautina og gert Grýtubakkahrepp að því sem hann er í dag.  Takk fyrir Björn.
Að lokum óska ég öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Grenivík í desember 2013, Guðný Sverrisdóttir