Pistill, desember 2011

Á fundi í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps 19. desember sl. var fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 samþykkt. Reiknað er með að rekstrarafgangur fyrir A hluta verði kr. 8.884.000 og rekstrarafgangur fyrir samstæðuna verði kr. 7.766.000,-. Þetta er óvanalega góð niðurstaða sem kemur til m.a. vegna áætlaðs söluhagnaðar af dráttarvél. Helstu fjárfestingar á nýju ári verða kaup á nýrri dráttarvél og viðbygging við leikskólann.

Verkefnin eru bæði afar brýn þar sem dráttarvélin er orðin 10 ára gömul og mæðir mikið á henni m.a. í snjómokstri og mikil þrengsli eru í leikskólanum en þar verður byggður gangur úr Krummafæti  yfir í Krummasel. Krummasel verður þá notað fyrir starfsmannaaðstöðu og gangurinn verður m.a. nýttur fyrir vagnageymslu. Á sama fundi var ákveðið gjald fyrir förgun á dýrahræjum en þau þurfa að fara í brennslu austur á Húsavík. Ákveðið var að leggja gjald á hverja búfjártegund samkvæmt forðagæsluskýrslu. Slíkt fyrirkomulag hvetur til þess að bændur fargi ekki dýrahræjum sjálfir. Þar sem við vitum ekki hversu mikið magn fellur til rennum við svolítið blint í sjóinn varðandi gjaldtökuna en á næsta ári verður allt sem til fellur skráð og þá verður hægt að taka ákvarðanir út frá því. Reiknað er með að bændur greiði um helming af kostnaðinum við brennslu, flutning og geymslu dýrahræja. Jólatónleikar Tónlistarskóla Eyjafjarðar voru haldnir nú á dögunum og voru þeir glæsilegir að vanda. Um 40 nemendur stunda tónlistarnám í vetur í Grýtubakkahreppi sem er um 2/3 allra grunnskólanemenda í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir kreppu hefur framlag til tónlistarskólans ekki verið skert.

Með von um að allir landsmenn nær og fjær eigi gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár.
Grenivík í desember 2011, Guðný Sverrisdóttir.