Pistill, desember 2005

Kæru félagar nær og fjær.  Gleðileg jól og farsælt komandi ár.  Já jólin eru komin og verða fljót að fljúga hjá.  Á jólum leita ýmsar minningar fram í hugann, t.d. þegar fyrsta jólaserían var keypt á mitt heimili.  Ég var 5 ára og það fengust svo fallegar jólaseríur í Bjössabúð.  Okkur systurnar og mömmu langaði allar í seríurnar og þá voru góð ráð dýr. 

Ákveðið var að ég bæði pabba um leyfi því ég þótti víst góð við að hafa mitt fram með lægninni.  Ég man að ég skreið upp í fangið á honum þar sem hann sat við skrifborðið sitt, tók utan um hálsinn á honum og hvíslaði eins fallega og ég kunni í eyrað á honum og viti menn hann sagði já.  Ekki eru mörg ár síðan enn kom ljós á seríuna gömlu.  Já þær voru ekki einnota seríurnar þá eins og nú til dags. Þótt mér finnist stutt síðan að ég var 5 ára og engin sería til heima, finnst börnum í dag vafalaust að ég hafi verið 5 ára í eld-eldgamla daga og ekkert skrýtið þótt engin jólaljós væru til þá.

Þann 19. desember sl. afgreiddi sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fjárhagsáætlun 2006.  Helstu tölur eru eftirfarandi: Í þús. kr. Skatttekjur      kr. 139.072 Rekstrargjöld og fjárfestingar kr. 156.753 Afskriftir     kr. 17.057 Afborganir af lánum   kr. 6.000 Verðbætur     kr. 6.500 Lántaka     kr. 1.000 Óráðstafað     kr.   876

Helstu fjárfestingar eru eftirfarandi:  Lagfæring á tjaldsvæði, ljósastaurar í Höfðagötu, nýr sláttutraktor, búnaður í slökkvistöð og síðast en ekki síst lagfæring á skólahúsnæði.

Nú er lokið við að leggja veg upp á Þverlágarhrygg.  Að mínu mati er það þess virði að aka þar upp og virða fyrir sér útsýnið, mér finnst það engu líkt.  Sú fjárhagsáætlun sem gerð var fyrir verkið stóðst nákvæmlega þótt "sjálfmenntaðir verkfræðingar" innu áætlunina.  Þeir sem fjármögnuðu verkið voru KEA, snjósleðamenn við Eyjafjörð, styrkvegasjóður Vegagerðarinnar og Grýtubakkahreppur.  Án þessara góðu styrkja hefði verkið ekki orðið að veruleika og því ber að þakka þessi góðu framlög.

Í síðustu pistlum hef ég verið að vonast eftir sumarauka og nú er hann loks kominn og það á jólaföstu.  Þótt eflaust einhverjum finnist vanta jólasnjóinn er bæði ódýrt og þægilegt að hafa blíðviðri um jól og áramót.

Gleðilegt nýtt ár.

Grenivík í desember 2005 Guðný Sverrisdóttir