Pistill, apríl 2011

Á sveitarstjórnarfundi 4. apríl sl. var ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir árið 2010 samþykktur. Rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er kr. 4.374.000,- í hagnað en rekstrarniðurstaða samstæðunnar er kr 261.000,- í tap. Ég var spurð að því um daginn hvernig reksturinn hefði komið út á árinu. Mér vafðist tunga um tönn, hvað er góður og hvað er slæmur rekstur á sveitarfélagi? Að mínu mati er það ekki stefna sveitarfélagsins að sýna sem mestan hagnað heldur að veita sem besta þjónustu fyrir þá fjármuni sem úr er að spila og á sem hagkvæmastan hátt.

Skuldir sveitarfélagsins eru tiltölulegar litlar utan við þær sem hvíla á leiguíbúðunum og veltufé frá rekstri er þokkalega gott en það eru þeir peningar sem sveitarfélagið hefur til framkvæmda og til greiðslu lána. Töluvert verður um framkvæmdir nú í sumar. Langt er komið með að byggja þjónustuhús á tjaldstæðið, innan skamms verðu byrjað á malbikunarframkvæmdum í Höfðagötu, Sælandi og austurhluta Lækjarvalla. Einnig verður gerður og malbikaður stígur frá Túngötu að Lækjarvöllum vestan leikskólans. Endurbætur á sundlaug eru langt komnar og vonandi verður hægt að hefja sundkennslu í  kringum 10. maí.
Páskahátíðin hefur vonandi verið ljúf hjá sem flestum. Um 60 manns drifu sig í föstugöngu á föstudaginn langa frá Grenivíkurkirkju suður í Laufás og gæddu sér á ljúffengri súpu og hlýddu síðan á tónleika í Laufáskirkju með Svavari Knúti. Á páskadagsmorgun var hefðbundin hátíðarguðsþjónusta í Grenivíkurkirkju og morgunverður í boði kirkjukórsins á eftir og annan í páskum var útivistardagur í Grenivíkurfjalli í boði Sæness. Sigurbjörn í Réttarholti og Jón Ásgeir ferjuðu mannskapinn upp á fjall og voru síðan með ferðir fram eftir degi fyrir þá sem vildu renna sér fleiri ferðir. Veðrið var yndislegt og dagurinn vel heppnaður í alla staði.
Grenivík í apríl 2011, Guðný Sverrisdóttir.