Nýtt ár með betri tíð

Sigurður Baldur tekur við nýju vélinni í dag hjá Aflvélum á Akureyri.
Sigurður Baldur tekur við nýju vélinni í dag hjá Aflvélum á Akureyri.

Hlutverk sveitarfélaga og stjórnenda þeirra, er ekki síst að vinna stöðugt að því að bæta skilyrði til búsetu. Efla og viðhalda góðri þjónustu, fegra umhverfi og hlúa að atvinnulífi, félags- og menningarstarfi. Á sama tíma þarf að tryggja rekstrarlega sjálfbærni til lengri tíma. Þetta eru afar gefandi og áhugaverð verkefni, ekki síst þegar árangur er sýnilegur. Við göngum nú inn í nýtt ár full bjartsýni og teljum okkur hafa ástæðu til.

Liðið ár einkenndist af miklum framkvæmdum, sama mun gilda um 2024. Við hófum lengingu Lækjarvalla með jarðvegsskiptum, á þessu ári verður viðbótin síðan malbikuð og frágengin. Við gerðum stórátak í uppbyggingu skólalóðar, bættum einnig leikskólalóðina og framkvæmdum nokkuð við Grenilund. Endurnýjun götulýsingar var hafin og verður henni lokið að mestu á þessu ári. Má segja að verulega birti yfir þorpinu við þá breytingu en með tímanum sparast einnig verulegt rafmagn. Þá erum við að taka í gagnið nýja dráttarvél sem leysir eldri vél af hólmi. Hún hefur enn fleiri kosti, ekki síst til snjómoksturs, sem er afar mikilvægur þjónustuþáttur fyrir búsetu hér um slóðir.

Íbúum er nú tekið að fjölga eftir nokkuð langa kyrrstöðu og fóru yfir 400 í október, líklega í fyrsta skipti síðan 1992. Voru þeir orðnir 405 við áramót. Nýsamþykkt húsnæðisáætlun hreppsins gerir ráð fyrir fjölgun áfram næstu árin og að íbúar verði orðnir 500 eftir 3 – 5 ár, miðað við háspá og miðspá. Fjölgun íbúa fylgja auknar skatttekjur og meiri geta til að viðhalda góðri þjónustu og jafnvel bæta í. Við sjáum ekki fram á kostnaðarsama uppbyggingu innviða á móti, skólinn mun t.d. duga um nokkurt árabil enn. Stækkun leikskólans mun þó væntanlega verða á dagskrá á allra næstu árum. Þá verður viðhaldsverkefnum áfram sinnt, á þessu ári verður t.d. byrjað að endurnýja glugga í skólanum og það verk svo unnið áfram í áföngum næstu árin. Einnig verða þakrennur og þakkantar skólans endurnýjaðir og fleira mætti tína til.

Kraftur hefur einnig verið í uppbyggingu einkaaðila, bæði atvinnulífs og einstaklinga. Pharmarctica er að taka í notkun nýtt og vel búið húsnæði sem margfaldar framleiðslugetu fyrirtækisins. Íbúðabyggingar eru á fullu og munu verða áfram næstu árin. Þá mun byggingu lúxushótelsins Höfði Lodge væntanlega ljúka á árinu, það er langstærsta og viðamesta framkvæmd hér um slóðir um langt árabil. Verður spennandi að sjá starfsemina fara í gang og ekki síður að fylgjast með hvernig tekst til með að virkja alla þá möguleika sem opnast í afleiddri þjónustu.

Mér er hugleikin umgjörð búsetunnar, umhverfi og félagslegur aðbúnaður. Við höfum á liðnum árum breytt ásýnd Grenivíkur töluvert, t.d. með endurbótum við sundlaugina og gerð áningarstaðar við Gömlu bryggju. Hafin er bygging sjóbúðar við hlið Útgerðarminjasafnsins og í sumar er áformað að fara í smá endurbætur á gömlu bryggjunni þannig að hún verði skemmtilegri til umgengni.

Endurnýjun og tilfærsla bensínstöðvarinnar bætir mjög aðgengi að kjarnahúsinu okkar, Grýtu, og verður lokið við frágang baklóðarinnar í sumar. Þá fer líka að koma tími á andlitslyftingu torgsins fyrir framan húsið, þó það sé ekki komið á tímasetta áætlun. Þar viljum við einnig koma fyrir grenitré eða trjám, sem geta síðan borið seríur um jólin. Mörgum hefur þótt jólaskreytingar heldur snautlegar á miðsvæðinu okkar, þarna má bæta úr og verður gert á næstu misserum.

Þjónusta snýr þó ekki bara að sveitarfélaginu. Ríkið hefur því miður talið sér sæma að tálga niður ýmsa þjónustu s.s. póstþjónustu út um landið. Á sama tíma er samt boðað að allir íbúar landsins eigi að búa við sem jafnasta þjónustu. Allar tillögur sveitarstjórnar í þessum málum hafa fallið í grýttan jarðveg hjá stjórnvöldum því miður. Sveitarstjórn mun þó áfram vinna einarðlega að hagsmunagæslu fyrir hönd íbúa í þessum efnum sem öðrum.

Íbúar sjálfir bera einnig nokkra ábyrgð á þróun þjónustu. Þjónusta sem íbúar nýta ekki að marki mun ekki lifa og dafna. Gildir einu hvort um er að ræða verslun, veitingahús, flutningaþjónustu eða annað. Íbúar geta þannig sjálfir unnið að því að viðhalda góðu þjónustustigi með viðskiptum sínum, það er of seint í rassinn gripið þegar allt er farið. Íbúar hafa á liðnum árum sýnt hug sinn í verki þegar kemur að umgengni og snyrtimennsku. Allt snýst þetta um viðhorf og á næstu árum mun ekki síður reyna á viðhorf íbúa til þjónustu á staðnum.

Fjölgun íbúa af erlendum uppruna færir okkur ný verkefni. Við höfum ekki sinnt þeim verkefnum nógu vel til þessa en stefnum að því að bæta úr og ná betra samtali við þennan hóp. Það er mikilvægt fyrir lýðræðið og fyrir almenna þróun samfélagsins og búsetunnar, að þessi hópur verði ekki útundan, heldur nái að samlagast og vera virkur í samfélaginu. Eitt það mikilvægasta er tungumálið og er verk óunnið við íslenskukennslu. Sveitarfélagið hefur nú fært starfsmönnum sínum af erlendum uppruna aðgengi að appinu „Bara tala“ sem eru talmálsæfingar á íslensku. Er það von okkar að appið nýtist þeim vel og ef svo reynist, verður athugað með frekari dreifingu þess, mögulega í samvinnu við fyrirtækin á staðnum.

Samfélagsbreytingar reyna einnig á almenn samskipti, grunnviðhorf og virðingu. Það er oft sagt að heilt þorp þurfi til að ala upp barn, og sannarlega höfum við talið þorpið okkar góðan stað til uppeldis. Þorpið sjálft, íbúar, skólar og félagsstarf duga þó ekki til. Foreldrar þurfa fyrst og síðast að sinna sínu hlutverki af alúð. Gefa sér tíma til að tala við börnin, kenna þeim góð samskipti, virðingu fyrir öðrum og búa þeim í hvívetna ástríkt, reglusamt og öruggt umhverfi. Allra mikilvægast er þó að vera þeim góð fyrirmynd, huga að eigin tali og háttum. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Borið hefur á agaleysi, skorti á virðingu fyrir öðrum, ekki síst þeim sem koma utan að og hegðunarvandamál af ýmsum toga hafa farið vaxandi í skólunum. Stóraukið dýrahald á Grenivík hefur einnig reynt á umgengni og á köflum á þolinmæði nágranna. Skýrar reglur gilda um dýrahald og verður að ætlast til þess að íbúar sem halda hunda og ketti standi undir þeim kröfum sem reglur setja. Nágrannar eiga ekki að þurfa að vaða dýraskít á sínum lóðum, né sæta ónæði vegna hávaða. Lausaganga hunda á ekki að sjást í þéttbýlinu. Skorað er á dýraeigendur að taka sig á og standa undir sinni ábyrgð.  Þeir sem standa sig vel eiga heldur ekki að líða fyrir slóðaskap annarra.

Í okkar fallega sveitarfélagi höfum við alla möguleika á að skapa hina bestu umgjörð um búsetu okkar. Samfélagið hér er þekkt fyrir að sýna mikla samstöðu og samhug þegar á reynir. Það er styrkur sem við byggjum á til framtíðar. Við skulum nýta okkar möguleika til að skapa gott samfélag, byggt á virðingu og samstöðu íbúanna. Byggt á umburðarlyndi og tillitssemi við samborgara okkar. Gleymum ekki heldur gleðinni, hún er sannarlega hluti af tilgangi jarðlífsins, ekki síst er hollt og gott að gleðjast saman, t.d. á þorrablóti.

Eins og í upphafi var rakið er full ástæða til bjartsýni, hún er okkur mikilvæg á hverjum tíma. Trú á framfarir, trú á betra samfélag. Við skulum hjálpast að við þessa vegferð, þar hafa allir hlutverk.

Gleðilegt ár.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri