Hvað er í fréttum! Í aðdraganda kosninga

Stórurð er í nýlega sameinuðu sveitarfélagi.
Stórurð er í nýlega sameinuðu sveitarfélagi.

Í gær og í morgun hafa tvær fréttir vakið sérstaka athygli mína, enda snerta þær beint það mál sem ég hef varið hvað mestum tíma í síðustu árin, eða sameiningarmál sveitarfélaga.

Fyrst þessi í mbl.is frá í morgun;  "Oddvitinn kýs ekki með sameiningu"

Í henni er fjallað um sameiningarkosningar í 5 sveitarfélögum á Suðurlandi en kosið verður meðfram Alþingiskosningunum um aðra helgi.  Vitnað er í oddvita Mýrdalshrepps, Einar Frey Elínarson, en hann segir m.a.:   „Hætt­an er sú að í stóru sveit­ar­fé­lagi beri freist­ing­in til þess að hagræða menn of­urliði. Þrátt fyr­ir að hagræðing­in gæti haft í för með sér mikla skerðingu á þjón­ustu­stigi á ákveðnum stöðum, til dæm­is í þjón­ustu við eldri borg­ara.“

Einar oddviti metur það svo að ávinningur með sameiningu sé óljós en of mikil hætta sé á að hún geti leitt til skerðingar á þjónustu í hans sveitarfélagi.  Það er þveröfugt við það sem sífellt er talað um að sé markmiðið með sameiningu.

Önnur frétt var í kvöldfréttum rúv í gær af kosningunum í Noregi;  "Loftslagsmálin ekki jafn ráðandi og búist var við"

Í henni er farið yfir úrslit kosninga í Noregi og þar rekur Herdís Sigurgrímsdóttir stjórnmálafræðingur í Noregi helstu ástæður fyrir þeirri miklu sveiflu sem varð.  Miðflokkurinn eða Senterpartiet, bætti langmestu við sig og um ástæður þess segir Herdís:   „Og eftir átta ár með hægristjórn þá var búið að hagræða með hinu og þessu. Það var búið að fækka lögregluumdæmum og það var búið að fækka fæðingardeildum o.s.frv. Þannig að það búin að byggjast upp mikil gremja á landsbyggðinni sem kom Senterpartiet, Miðflokknum til góða.“

Rétt er að rifja upp í leiðinni frétt af vef Sambands íslenskra sveitarfélaga frá í desember 2019;  "Norskum sveitarfélögum fækkar úr 428 í 356"

Í þeirri frétt segir einmitt af sameiningarátaki norskra stjórnvalda sem hófst 2014.  Ekki þarf að fara í grafgötur um að þetta var talið mikið framfaramál og til eftirbreytni fyrir okkur.  Minna fór fyrir fréttum af lokunum þjónustustofnana s.s. skóla, heilsugæslustöðva eða fæðingardeilda í hinum fámennari byggðum Noregs.  Því er þessi frétt ruv afar upplýsandi.  Ég hafði raunar fyrir löngu haft spurnir af þessari óánægju í Noregi frá Íslendingum búsettum í þessum sameinuðu sveitarfélögum sem upplifðu blóðugan niðurskurð þjónustu víða.

Norðmenn hafa vaknað upp við þá staðreynd, að hagræðing eftir sameiningar sveitarfélaga næst illa nema með skerðingu þjónustu.  Þar verða þær byggðir jafnan verst úti sem eru í jaðri hinna sameinuðu sveitarfélaga.

Þau rök að stofnað sé til sameininga til þess að bæta þjónustu við íbúa hafa því oft illa haldið þegar á hólminn er komið.  Það er eðlilegt og sjálfsagt að íbúar taki afstöðu í sameiningarkosningum út frá sinni sannfæringu og þeirri reynslu sem komin er, bæði á Íslandi og í nágrannalöndunum.  Ekki skal horfa framhjá því að vel má ná fram hagræðingu og styrk með sameiningu sveitarfélaga.  Það er afar skynsamlegt þar sem landfræðilegar aðstæður og jafnvægi byggða er hagstætt til þess.  Hitt er einnig ljóst, að mikil hætta er á að hagræðing komi niður á þjónustu við íbúana, einkum á jaðarsvæðum landmikilla sveitarfélaga.

Þetta er ekki vettvangur fyrir pólitískan áróður, en sjálfur mun ég um aðra helgi horfa til þess sem flokkar og frambjóðendur hafa sagt og gert og þá ekki bara síðustu vikur fyrir kosningar!  Þó sameiningarmál séu ekki ofarlega á baugi í Alþingiskosningum, þá er í þeim allt lífið undir, ekki síst hvernig byggð í landinu mun þróast næstu ár og áratugi.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri