Hrós og hvatning á tímum covid

Fagribær í Grýtubakkahreppi
Fagribær í Grýtubakkahreppi

Þetta ár hefur reynt á þolrif okkar með ýmsum hætti og sér ekki fyrir endann á.  Eftir vetur með ótíð og kostnaðarsömum snjómokstri, tók við heimsfaraldur.  Hann er enn að hrella þjóðina og hefur haft margvísleg áhrif á rekstur sveitarfélaga til hins verra, við förum ekki varhluta af því.  Sveitarstjórn hefur lagt áherslu á að halda fullu þjónustustigi, standa við framkvæmdir og veita ungu fólki sumarvinnu sem þess þurfti með.  Við erum svo heppin að vera nánast alveg laus við atvinnuleysisdrauginn sem herjar hraustlega víða um land.  Virðist tekjustreymi ætla að halda allvel hjá Grýtubakkahreppi út árið þó að vart muni duga til að endar nái saman.

Nú er tími gangna og rétta, þar hefur covid sín áhrif eins og sjá má í frétt á heimasíðu okkar.  Bændur leysa þau mál vel og í takt við fyrirmæli, enda hafa þeir á liðnum árum sýnt aðdáunarverða samstöðu og dugnað, t.d. við byggingu nýrrar glæsilegrar fjárréttar.  Sterkt bændasamfélag er ein af grunnstoðum okkar góða samfélags.  Veturinn reyndi ekki síst á bændur og var fé t.d. mikið lengur á túnum en venja er.  Forsjálir bændur urðu sér úti um viðbótartún til heyskapar, sumum komu góðir grannar til hjálpar.  Ekki er annað vitað en að bændur í hreppnum búi að nægum heyjaforða til næsta vetrar sem við vonum þó að fari mildari höndum um okkur en sá síðasti.  Samstaða, samhjálp og samstarf eru einkennandi orð fyrir gott samfélag og eiga við hér. 

Ein af áhrifum covid eru aukin ferðalög innanlands vegna ferðatakmarkana erlendis.  Í sumar hafa venju fremur margir Íslendingar tekið sveig af meginleiðinni og komið í heimsókn hingað til okkar.  Þeim hefur komið á óvart að finna á Grenivík einstaklega snyrtilegt og fallegt þorp.  Upplifun ferðamanna hefur verið svo sterk og jákvæð að sumir hafa tekið á sig krók til að koma ánægju sinni og aðdáun á framfæri.  Bæði með heimsókn á skrifstofu sveitarfélagsins og einnig með því að hringja eftir að heim er komið.  Svo jákvæð upplifun er samspil margra þátta og ástæða til að rekja nokkra.

Lengi hefur sveitarfélagið lagt áherslu á góða hirðingu þorpsins og hafa íbúar lagst vel á þær árar einnig.  Með markvissri uppbyggingu myndast jákvæð heildarmynd.  Skjólgott og fallegt tjaldstæði með fyrsta flokks aðstöðu, sundlaug sem fékk nýtt líf með glervegg svo fagurt úsýnið fengi notið sín.  Með nýrri setlaug og buslulaug verður hún örugglega sjálfstætt aðdráttarafl ein og sér.  Svæðið við Útgerðarminjasafnið hefur verið byggt fallega upp og safninu sköpuð einstök umgjörð þar sem náttúra fjarðarins leikur undir í öllu sínu veldi, ekki síst þegar vel viðrar eins og oft hefur gert í sumar.

Í búðinni mætir gestum óvænt vöruúrval og brosandi afgreiðslufólk.  Nýtt veitingahús hefur slegið í gegn með frábærum réttum úr hráefnum að miklu leyti hér af heimaslóðum.  Einstaklingar hafa tekið til við að reisa glæsileg íbúðarhús á fallegasta stað, slík uppbygging skapar kraft og trú á framtíðina.  Þegar allir leggjast þannig á eitt verður útkoman jákvæð og þróun til framtíðar öll í rétta átt.  Snyrtimennska er ekki endilega meðfædd en börnin læra það sem fyrir þeim er haft.  Þegar þeim síðan misbýður hafa þau þor til að taka sjálf á málum.

Á dögunum komu þannig tvær ungar stúlkur að máli við sveitarstjóra.  Þeim líkaði ekki umgengnin á leikvellinum við nýja ærslabelginn, þar væri sælgætisbréfum hent í grasið því engin væri ruslatunnan.  Óskuðu þær eftir úrbótum og var að sjálfsögðu orðið við því og ruslatunna mætt á leikvöllinn morguninn eftir.  Hafi þær þökk fyrir árveknina og hafi íbúar allir þökk fyrir að hjálpa til við uppeldi og þróun okkar samfélags, jafnan til betri vegar.  Einnig vil ég færa starfsmönnum hreppsins alúðarþakkir fyrir sín frábæru störf, á marga hefur reynt á þessu ári af ýmsum ástæðum.

Sveitarstjórn hefur á síðasta fundi sínum ákveðið að stofna ungmennaráð í hreppnum.  Með því fær æskan og þannig framtíð Grýtubakkahrepps aukið vægi við stefnumótun og ákvarðanatöku.  Áfram bíða áskoranir í rekstri og ný uppbyggingarverkefni sem þarf að takast á við.  Sveitarstjórn horfir bjartsýn fram á veg þó gefið hafi á bátinn nú um stundir.  Samfélag sem stendur svo vel saman sem að framan er rakið, mun ganga upprétt og sterkt inn í óvissa framtíð.  

Megi hrós okkar gesta verða okkur öllum hvatning til að leggjast á eitt um að gera enn betur í framtíðinni.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri