Höfði Lodge á Skælu við Grenivík – kynning deiliskipulagstillögu á vinnslustigi

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkti á fundi sínum þann 1. mars 2021 að kynna tillögu vinnslustigi að deiliskipulagi fyrir hótel og tengda starfsemi á Skælu við Grenivík skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagssvæðið er alls um 10 ha. að stærð og liggur nyrst í Þengilhöfða sunnan Grenivíkur. Í deiliskipulagstillögunni felst að reist verði allt að 6000 fm. hótel á fjórum hæðum í stöllum, um 20 starfsmannaíbúðir og starfsmannaaðstaða á einni hæð, útsýnispallur, bílastæði, rotþrær og veitur. Auk þess er gert ráð fyrir lendingaraðstöðu fyrir þyrlu við hótelið og göngu- og reiðleiðum um svæðið.

Skipulagstillagan ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu liggur frammi á sveitarskrifstofu Grýtubakkahrepps frá 3. mars 2021 til og með 17. mars 2021 og á heimasíðu sveitarfélagsins, grenivik.is.

Einnig verður haldinn opinn kynningarfundur í Litla sal Grenivíkurskóla kl. 17:00 fimmtudaginn 11. mars n.k.  Á fundinum verður deiliskipulagstillagan kynnt og auk þess munu aðstandendur verkefnisins kynna áform sín og svara fyrirspurnum.

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri til miðvikudagsins 17. mars 2021. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skulu berast á sveitarskrifstofu Grýtubakkahrepps, Túngötu 3, 610 Grenivík, eða í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is.

Skipulags- og byggingarfulltrúi