Hangilærið, 14. sept. 2016

Hangilærið

Það er hverri þjóð bráðnauðsynlegt að vita hvaðan hún kemur, þekkja sögu sína og menningu, það sem gerir hana að þjóð.  Sauðfjárrækt er samofin sögu Íslands allt frá upphafi byggðar og ætli innsti kjarni sögu okkar og menningar sé ekki falinn í blessuðu hangilærinu og lopapeysunni.

Í Grýtubakkahreppi býr kraftmikill en fámennur hópur sauðfjárbænda, sem hefur nú nýverið lyft grettistaki með byggingu nýrrar og glæsilegrar fjárréttar á Gljúfuráreyrum.  Hún er byggð af stórhug og framsýni en jafnframt útsjónarsemi og spái ég að hún verði öðrum fyrirmynd.  Vígsludagur hennar var fagur gleðidagur í okkar sveit.  Þó eru blikur á lofti.

Um þessar mundir er hart sótt að þessari kjarnagrein íslensks atvinnulífs úr ýmsum áttum.  Verslunin hefur rekið harðan áróður fyrir innflutningi og gegn stuðningi við landbúnaðinn.  Stuðningi sem er raunar hugsaður sem neytendastuðningur og það skyldi ekki vera að drjúgur hluti þessa stuðnings endi í raun hjá versluninni?  Afurðastöðvar hafa boðað verðlækkanir, vilja frekar taka slaginn við bændur, sem eru raunar eigendur stöðvanna að stærstum hluta, heldur en verslunina.  Það verður þeim ekki til framdráttar til lengri tíma, enda lítið fyrir afurðastöðvar að gera ef þær drepa af sér framleiðendurna.

Margir eru sjálfskipaðir talsmenn neytenda og tala harkalega gegn íslenskri framleiðslu.  Minna er spurt hvað íslenskir neytendur vilja í raun.  Vilja þeir ekki fá sitt hangilæri á jólum?  Vilja þeir ekki nýta auðlindir landsins til þeirrar framleiðslu sem landið býður og hefðir standa til og hafa jafnframt atvinnu af úrvinnslu afurða og þjónustu við okkar frumgreinar?

Það eru víða ófriðarblikur á lofti í heiminum og sprungur í samheldni þjóða, því miður eru einnig feysknar stoðir undir fjármálakerfi heimsins.  Fjölgun mannkyns nær sögulegum hæðum og við nálgumst nú ár frá ári endimörk getu jarðar til framleiðslu matar í þann ógnarfjölda.  Við þessar ótryggu aðstæður ætti að vera forgangsmál stjórnmálaafla sem vilja leiða þjóðina inn í óvissa framtíð, að hlúa að innlendri framleiðslu og gæta að öryggi landsmanna.  Einn öryggisþáttur og ekki sá léttvægasti, er fæðuöryggi.  Nú eru þær kynslóðir Íslendinga óðum að verða gengnar sem þekkja það nöturlega hlutskipti að sofna svangur.  Ef við molum niður okkar matvælaframleiðslu í þágu stundargróða viðskiptalífsins, kann að vera styttra en margur heldur í það að Íslendingar kynnist aftur þeirri skelfilegu tilfinningu, að hafa ekki mat fyrir sig og sína.

Vonandi nær nýstaðfestur búvörusamningur að mynda einhverja viðspyrnu sem gagnast til framtíðar, en um hann eru þó skiptar skoðanir, ekki kann ég að dæma þar um galla og kosti.  Mikilvægt verður þó að telja að bændur kynni sér hann vel og nái að nýta öll tækifæri sem hann kann að bjóða upp á.  Landbúnaður sem framleiðir heilnæma vöru, nýtir land en bætir um leið og notar aðeins brot af lyfjum m.v. það sem annars staðar tíðkast, hann ætti sannarlega að vera þjóðarstolt.

Hangilærið er okkar sögulegi þjóðarréttur, jafnan í heiðurssessi á stærstu hátíð landsmanna.  Þeir sem framleiða slíka vöru sem byggir á æfagömlum hefðum, þróuðu ræktunarstarfi og vinnslu undir strangasta gæðaeftirliti, sauðfjárbændur, ættu að skipa mestan virðingarsess í okkar samfélagi.  Þeir eru sannarlega engir beiningarmenn og ættu allir þeir sem það telja að setjast niður og hugsa vel sit ráð upp á nýtt.  Góð byrjun gæti þá verið að spyja sjálfan sig; hvað legg ég til samfélagsins með mínu lífi og starfi, er það þjóðinni til jafnmikils gagns og starf bóndans, hvert er mitt hangilæri?

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri