Gleðilegt ár! - Frá sveitarstjóra

Endurnærandi fyrir sál og líkama.   (Mynd: Hermann)
Endurnærandi fyrir sál og líkama. (Mynd: Hermann)

Um leið og við fögnum nýju ári með nýjum vonum og nýjum möguleikum, er rétt að líta aðeins yfir sviðið, horfa til baka og líka fram á veg.

Fyrri hluti – Covid

Það er sérstakt og að vissu leyti þungbært, að í hvert sinn sem við tökum skref áfram, skulum við hnjóta á hné í leiðinni. Þrátt fyrir bólusetningu, seinni skammt og örvunarskammt, flæða smit yfir landið og er enginn eyland í þeirri mynd, ekki okkar sveitarfélag heldur.

Staðan í upphafi árs er ekki sú sem við óskuðum okkur eða trúðum að yrði. Þetta reynir á okkar samfélag, á þolmörk þess er lýtur að frelsisskerðingum og ekki síður reynir á samskipti. Víða er þolinmæði á þrotum og umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra lítið. Við verðum að reyna enn á ný að finna samstöðuna. Tíminn er með þeim galla gerður að líða bara áfram, því er engin leið að sannreyna nema eina leið hverju sinni. Þeir sem í brúnni standa og velja leiðina, eru að gera sitt besta og velja meðalveg sem þjónar sem flestum hagsmunum. Við verðum að sýna öllum virðingu og skilning, hvort sem við erum sammála ríkjandi leiðum og aðferðum eða ekki. Ljót umræða, dómharka og jafnvel beinar hótanir, eru siðaðri þjóð til mikils vansa.

Á þessu ári mun reyna á fleiri bjargir en áður, einkum er snúa að andlegri velferð. Á það bæði við starfsstéttir sem hafa nú lengi verið undir miklu álagi, en einnig þá einstaklinga sem eru veikari fyrir. Heilbrigðiskerfið mun ekki klára alla hluti sem þarf til, við þurfum öll sem samfélag að hjálpast að. Frjáls félagastarfsemi, hjálparstofnanir, sveitarfélög og trúfélög, við þurfum öll að leggjast á eitt og reyna að byrgja brunna. Þeim brunnum hefur fjölgað sem opnir eru og sárt að horfa á eftir fólki falla í þá sem ætti að vera hægt að bjarga. Það er mikil áskorun að tryggja velferð fjölskyldunnar í gegnum þetta öldurót. Það er gríðar mikilvægt að þeir sem eru hjálpar þurfi þori að leita sér aðstoðar, ekki síður að viðeigandi hjálp sé í boði.

Mér er hugsað til starfsfólks sveitarfélagsins sem hefur æðrulaust haldið áfram, sinnt sínu verki af fagmennsku og fórnfýsi. Hæft og samviskusamt starfsfólk sem ber hag sveitarfélagsins fyrir brjósti í störfum sínum hvern dag, er auðlind og það afl sem lætur hlutina ganga upp, hvað sem á dynur. Því eru færðar miklar þakkir með þeirri von og trú að þetta ár verði öllum léttara eftir því sem á líður.

Síðari hluti – Grýtubakkahreppur

Í ár verður kosið til sveitarstjórnar þann 14. maí. Það er skrítið að senn líði að lokum míns annars kjörtímabils hér. Skrítið, þar sem mér finnst ég bara vera rétt nýkominn. Ég er þakklátur fyrir þetta samfélag sem hefur sýnt mér ekkert nema væntumþykju, hana reyni ég að endurgjalda sem ég er maður til. Hvort mér er ætlað að starfa áfram hér eftir kosningar kemur síðan í ljós.

Starf sveitarstjóra er ekkert venjulegt starf og ólíkt öðru sem ég hef reynt. Það spannar ótrúlega vítt svið, frá því sem snýr að rekstri, framkvæmdum og lagaumhverfi, til flestra hluta mannlegs lífs. Það eru mikil forréttindi að fá að gegna slíkum störfum, hvernig til tekst er ekki alltaf eins augljóst. Kerfið sem við köllum stjórnsýslu er um margt þunglamalegt og seinvirkt. Hér hefur þó smáa samfélagið forskot, margt er einfaldara og fljótlegra en í stærri sveitarfélögum. Og sannarlega kom ég að góðu búi, góðu og þéttu samfélagi.

Ég hef áður nefnt þá gæfu að búa við samhenta sveitarstjórn, fólk sem hugsar fyrst og fremst um hag og framgang sveitarfélagsins. Fólk sem er óbundið af flokkshagsmunum eða eigin framavonum í því sérstaka flokkspólitíska umhverfi. Það er von mín að íbúar beri áfram gæfu til að kjósa til starfa góða og samviskusama einstaklinga sem geta myndað trausta sveitarstjórn. Sveitarstjórn sem stendur föstum fótum á jörðinni en hefur þó dug og þor til að taka ákvarðanir sem máli skipta um framþróun samfélagsins. Stundum þarf að taka erfiðar og umdeildar ákvarðanir, aldrei verður öllum gert til hæfis. Launin eru svo gjarna gagnrýni og vanþakklæti. Allt þetta er íbúum hollt að íhuga í aðdraganda kosninga.

Mig langar nú að tæpa á nokkrum verkefnum okkar þessi tvö liðnu kjörtímabil og kannski líta aðeins á það sem framundan er. Þó manni finnist stundum lítið gerast, þá er ánægjulegt að líta yfir þessi ár og sjá jákvæða þróun á mörgum sviðum og mikla möguleika til framtíðar.

Það hefur staðið okkur nokkuð fyrir þrifum að viðvarandi skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði í hreppnum og erfitt um vik fyrir fólk sem vill flytja til okkar. Sveitarfélagið hefur á þessum tveim kjörtímabilum byggt 6 íbúðir, þó efast megi um að það eigi að vera hlutverk þess. Á móti hafa 7 eldri íbúðir verið seldar á frjálsum markaði sem er jákvætt. Enn jákvæðara er þó að hér hafa einstaklingar á ný farið að byggja sér hús eftir nokkuð langt hlé. Allar horfur eru á að framhald verði á nýbyggingum íbúða á þessu ári, án þess að sveitarfélagið hafi þar beina aðkomu.

En fleira skiptir máli en þak yfir höfuðið. Umgjörð búsetunnar og það sem tekur á móti gestum sem okkur sækja heim, viljum við að sé okkur öllum til sóma. Uppbygging áningarstaðarins „Þar sem vegurinn endar“ var skemmtilegt verkefni og góður áfangi í nánum tengslum við uppbyggingu Útgerðarminjasafnsins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkti verkefnið myndarlega og hefur það hlotið almennt mjög jákvæðar undirtektir gesta sem heimafólks.

Ekki síður eru viðbrögð jákvæð við endurbótum á sundlaugarsvæði. 2016 var settur glerveggur sem opnaði fyrir hið stórglæsilega útsýni sem laugin býður upp á og laugarsvæðið í leiðinni stækkað. 2020 var gert nýtt pottasvæði sem var umtalsverð framkvæmd og að sama skapi vel heppnuð. Loks var á síðasta ári lögð hitalögn til snjóbræðslu í eldri stétt, þannig að slysahætta að vetri hefur minnkað stórlega. Nýr stigi var einnig settur við grynnri enda laugarinnar sem auðveldar eldra fólki uppgöngu. Hafa þessar framkvæmdir aukið gildi laugarinnar að miklum mun og aðsókn að sama skapi vaxið mikið.

Samspil umhverfis, þjónustu og öflugs atvinnulífs, er grunnur farsællar búsetu. Því eru báðar þessar framkvæmdir mikilvægar og skipta verulegu máli í heildarmynd okkar samfélags.

Reglulega eru í fréttum vandræði sökum viðhaldsleysis fasteigna sveitarfélaga. Hér hefur verið reynt að sinna viðhaldi í tíma eftir því sem kostur er. Nefna má endurnýjun þaks á Grenivíkurskóla, yfirlagningu malbiks á Ægissíðu, endurnýjun baðherbergja á Grenilundi, nýtt gólf í íþróttahús og viðhald á leikskóla svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur tækjabúnaður hreppsins verið aukinn og endurnýjaður, sem hefur gert okkur enn betur sjálfbjarga við framkvæmdir og snjómokstur.

Ný fjárrétt 2016 var mikið mannvirki og glæsilegt, þar lögðu saman krafta sína sauðfjárbændur og sveitarfélagið svo til fyrimyndar var.

Unnið hefur verið að skipulagsmálum, lokið við að deiliskipuleggja íbúðarlóðir við Ægissíðu, Túngötu og Lækjarvelli og hafinn undirbúningur að nýju íbúðarhverfi í brekkunni sunnan Gamla Skóla. Þar mun vonandi byggjast upp fallegt hverfi á næstu árum eða áratugum. Rétt ofan við nýja hverfið er íþróttasvæðið, það hefur tekið nokkrum stakkaskiptum með glæsilegri stúku sem tekur alla hreppsbúa í sæti og nýju húsi Magna og Björgunarsveitarinnar Ægis. Húsbyggingin gjörbreytir aðstöðu félaganna og má þakka bygginguna stuðningi dótturfélags Grýtubakkahrepps, Sænesi ehf.

Nýir miðlunartankar við vatnsveitu munu vonandi tryggja betur afhendingaröryggi neysluvatns. Gerð nýrra vatnsbóla var raunar fyrsta verkið sem ég kom hér að 2014. Þá hefur Norðurorka verið að vinna að styrkingu hitaveitunnar. M.a. munu á þessu ári verða boraðar rannsóknarholur í leit að heitu vatni í sveitarfélaginu. Við vonum að þær skili árangri þó ekkert sé í hendi í þeim efnum. Á næstu árum reiknum við líka með að þurfa að fara í endurbætur á fráveitu hreppsins, nýjar kröfur um hreinsun eru væntanlegar og við viljum auðvitað standa okkur í þeim efnum.

Atvinnuástand hefur verið stöðugt þessi ár, raunar helsti vandinn skortur á starfsfólki. Þær íbúðabyggingar sem eru hafnar og eru á döfinni, munu með tíð og tíma létta eitthvað á. Næstu misserin munum við þó áfram þurfa að glíma við erfiðleika við að fullmanna störf og finna öllum samastað. Nálægð við Akureyri bjargar okkur fyrir horn og er kannski einnig að hluta til lykillinn að þeirri atvinnuuppbyggingu sem hafin er. Það er mikill kostur að svo stutt sé að sækja starfsfólk með allra handa þekkingu og reynslu.

Eitt mesta ánægjuefnið í dag er uppbygging lúxushótelsins Höfði Lodge, sem er hafin af fullum krafti. Það verkefni datt ekki af himnum ofan og á sér undirbúning og aðdraganda sem spannar þessi tvö kjörtímabil, jafnvel má rekja hugmyndina enn lengra aftur. Þetta er risaverkefni á okkar mælikvarða, raunar ansi stórt á fleiri kvarða en okkar. Það verður afar spennandi að sjá hótelið rísa og gesti fara að streyma að. Þeir munu þurfa margvíslega þjónustu og afþreyingu, sem skapar ýmis tækifæri fyrir þá sem hafa hugmyndaflug og dug til að grípa þau.

Þá stefnir óskabarnið okkar Pharmarctica að því að hefja í vor byggingu nýs og mun stærra húss undir sína framleiðslu, vegna stöðugt vaxandi umsvifa. Það er einstaklega skemmtilegt og öflugt fyrirtæki sem gefur óvenjulega vídd í atvinnuflóruna í svo litlu þorpi, við hliðina á okkar gamalgrónu útgerðarfyrirtækjum, Gjögri og Frosta. Á næstu grösum vex og dafnar Eyjabitinn og sér landsmönnum og fleirum fyrir gæða harðfiski. Þessi styrkur atvinnulífsins er grunnurinn undir búsetu okkar hér í dag og til framtíðar.

Þegar nýjar íbúðir komast í gagnið og ný atvinnutækifæri líta dagsins ljós, mun án vafa koma kippur íbúaþróun. Öll þessi uppbygging mun með tíð og tíma skila auknum skatttekjum, betri nýtingu innviða s.s. skóla og leikskóla og enn sterkari grunni undir búsetu. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið nokkuð svo í járnum þessi árin, en efnahagurinn er firna sterkur. Sveitarfélagið hefur fulla burði til að standa vel að málum, hvort heldur er í þjónustu við íbúa eða uppbyggingu atvinnu og innviða. Það er alfarið undir okkur sjálfum komið hvernig spilast úr áfram, en á hendi eru úrvals spil.

Við þessar aðstæður er einkar ánægjulegt að sinna starfi sveitarstjóra í Grýtubakkahreppi. Það sem mest er um vert er þó að finna þá bjartsýni á framtíðina sem hefur vaxið jafnt og þétt síðustu misserin. Finna áhuga fólks á staðnum, bæði til búsetu og til að sækja heim. Finna samhug og kraft íbúanna, áhuga þeirra á að samfélagið þróist í rétta átt. Metnaður þeirra er aðdáunarverður, t.d. við hirðingu lóða og bygginga og ekki síður fyrir hönd sveitarfélagsins. Það er gott að finna það aðhald sem íbúar veita okkur sem stöndum í brúnni.

Íbúar sýndu órofa samstöðu í þeim slag sem við tókum gegn lögfestingu lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum og mynduðu þannig afl sem eftir var tekið.

Bjartsýni og samhugur er einmitt það sem er okkur allra mikilvægast núna. Að láta ekki hugfallast yfir ástandinu í samfélaginu, að trúa á ljósið sem er framundan. Sólin er farin að hækka vel á lofti. Von bráðar gægist hún yfir höfðann og yljar okkur í sál og sinni. Hleypum yl hennar inn að hjarta og beinum honum áfram til náungans. Það er mikilvægt að finna gleðina innra með sér og sjá hið fallega á hverjum degi, í umhverfinu og í náunganum.

Öll él styttir upp um síðir og það er von mín og ósk að allir megi finna sína lífsgleði og hamingju á þessu nýbyrjaða ári.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri