Endurnýjun flotbryggju

Hafnasamlag Norðurlands vinnur þessa dagana að endurnýjun flotbryggjunnar í Grenivíkurhöfn.  Bryggjan var áður samsett úr þremur einingum en sú sem næst var landi skemmdist nokkuð í óveðri síðastliðið haust.

Nú hefur tveimur efri einingunum verið skipt út fyrir eina lengri.  Heildarlengd bryggjunnar verður nokkrum metrum minni eftir, en hún ætti að verða mun stöðugri en áður.  Aukið verður við botnfestingar í leiðinni til að bæta enn frekar öryggi bryggjunnar.

Viðlegupláss minnkar aðeins um sinn, en á næstu vikum verður aftur bætt fingrum á bryggjuna sem auka plássið á ný.

Á síðustu árum hefur verið bætt rafmagnstenglum á bryggjuna og lagt kalt vatn að henni.  Aðstaða fyrir minni báta er því alltaf að batna.