Tími tækifæranna

Útsýnið frá nýja hótelinu á eftir að gleðja margan gestinn
Útsýnið frá nýja hótelinu á eftir að gleðja margan gestinn

Í áramótapistli fyrir ári síðan, fór ég nokkuð yfir þróun mála í Grýtubakkahreppi nýliðin tvö kjörtímabil sveitarstjórnar. Einnig að nokkru þá möguleika sem framundan voru og eru.

Liðið ár var því miður ekki áfallalaust í okkar samfélagi, en undirstrikaði um leið orð mín í pistlinum um samheldni og styrk samfélagsins. Styrk, sem síðan opinberast einnig í framkvæmdum og vaxandi bjartsýni og trú á framtíðina. Sú trú er ekki tilefnislaus.

Sveitarstjórn úthlutaði lóðum til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði í meira mæli en verið hefur í áratugi, ef þá nokkurn tíma fyrr í sögu sveitarfélagsins. Ekki nóg með það, enn er eftirspurn eftir lóðum og verður spennandi að sjá húsin rísa á næstu misserum. Þá má sveitarfélagið hafa sig við að skipuleggja og síðan hefja gatnagerð, því það er mín sannfæring að hér verði áfram uppbygging næstu árin.

Það er ánægjulegt að verða nú ítrekað vitni að því, að fólk sem ekki á neinar tengingar til Grenivíkur, hrífst svo af fegurð náttúrunnar, snyrtimennsku íbúanna og almennt anda svæðisins, að það ýmist kaupir sér fasteignir eða sækir um lóðir til uppbyggingar. Hér er ég að tala um bæði Íslendinga sem koma mis langt að, en einnig gesti erlendis frá, sem ekki er síður merkilegt.

Íbúar mega vera stoltir af sínum hlut í þessu samspili náttúru og mannlífs, þeirri snyrtimennsku sem einkennir staðinn, af samheldni og samstöðu sem vinnur í þágu samfélagsins alls. Þeir uppskera síðan í miklum hækkunum á verðmæti sinna fasteigna. Þó fasteignagjöld hækki, er það mikil og jákvæð breyting að sjá eignir vaxa að verðgildi og ekki síður er ánægjuleg sú bjartsýni og sá ólgandi kraftur sem einkennir okkar samfélag um þessar mundir.

Samt hygg ég að fáir, ef nokkur, geri sér fulla grein fyrir öllum þeim tækifærum sem hér blasa við á næstu árum. Fólk er smám saman að átta sig á að uppbygging lúxushótelsins Höfði Lodge, er raunveruleg, en ekki bara draumur. Þeir möguleikar sem þessi eina framkvæmd skapar eru meiri og stærri en okkur órar fyrir enn.

Í raun er ekkert sem takmarkar möguleikana nema mörk okkar eigin hugmyndaflugs. Það sem áður var vandamál verður að nýjum tækifærum. Þannig má t.d. auðveldlega sjá fyrir sér að gamla sláturhúsið sem hefur verið að drabbast niður lengi og verið lýti á staðnum, verði á næstu árum endurgert að hluta, að hluta rifið og umhverfi hússins fegrað í leiðinni. Enda er elsti parturinn merkileg bygging og orðin meira en 100 ára gömul.

Nýtt hlutverk hússins gæti sem best verið að taka á móti ferðamönnum sem ætla í hvalaskoðun, á sjóstöng, í gönguferðir, á skíði, á vélsleða, í ferð á Kaldbak, í hjólaferð, á kajak, já, upptalning möguleikanna er í raun endalaus. Í húsinu og á fallegri verönd við það, fá þeir sér kaffiveitingar í leiðinni, úsýnið yfir höfnina og fjörðinn er ekki amalegt. Sjá má fyrir sér snyrtilegan göngustíg niður hallið að höfninni, þar sem bátar og kajakar bíða ferðbúnir.

Gamli Skólinn getur líka fengið nýtt hlutverk, orðið virðulegt menningarhús þar sem aðgengi verður bætt með nýrri lyftu og salurinn færður í upprunalegt horf. Þar sem tónlistarmenn koma reglulega og spila og syngja fyrir gesti og gangandi. Kannski verður lítið en skemmtilegt safn á neðri hæðinni sem má skoða meðan þess er beðið að tónleikar byrji. Eða íbúð fyrir tilfallandi listamenn um lengri eða skemmri tíma.

Ótal möguleikar bíða handan við hornið. Eins og fyrr segir trúi ég að þeir séu fleiri en nokkurn órar fyrir. Það blasir við að þau vaxandi umsvif sem við sjáum nú, kalla á nýjar hendur til starfa, nýtt fólk á svæðið sem aftur mun fylla leikskóla og skóla. Við erum vel í stakk búin að taka við þó nokkurri fjölgun, hvenær þarf að bæta við húsnæði skólanna mun koma í ljós.

Það er í raun sérkennilegt að setja þessar línur á blað sem sumpart hljóma eins og falleg en óraunveruleg draumsýn. Þó er ég fullviss um að hér er lýst raunverulegum tækifærum og að þegar tímar fram líða munum við sjá enn fleiri og merkilegri hluti gerast. Sveitarfélagið hefur enda fulla burði til að grípa þau tækifæri sem við blasa og þróa okkar góða samfélag áfram til framtíðar þar sem hlúð er vel að ungum sem öldnum.

Þar sem sterkt atvinnulíf, góð þjónusta og umgjörðin öll, heldur áfram að laða til sín gesti og um leið nýja öfluga íbúa. Tími tækifæranna er runninn upp, megi sem flestir ná á þeim taki og uppskera síðan til framtíðar.

Gleðilegt ár.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri.