Pistill,

Kæru lesendur!
Trúlega hefur ekki farið fram hjá neinum í sveitarfélaginu að forsvarsmenn byggðalagsins hafa setið með sveittan skallann við að ráða húsvörð og skólastjóra.  Enn hefur skólastjóri ekki verið ráðinn en Ármann Einarsson var ráðinn í stöðu húsvarðar.  Ármann býr í Fellabæ og er þar skólastjóri tónlistarskólans.  Eiginkona hans Alfa Aradóttir tekur hins vegar að sér félagsmiðstöð fyrir unglingana.  Alfa er í fjarnámi í K.H.Í í Tómstunda- og félagsmálafræði og hefur starfað m.a. við félagsmiðstöðina í Fellabæ.  Þau hafa því bæði unnið mikið með börnum og unglingum og trúi ég að mikill fengur sé að fá þau hingað til starfa.

Þann 3. maí sl. var ársreikningur Grýtubakkahrepps 2003 tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn.  Ætla mætti að ársreikningur svo lítils sveitarfélags væri ekki stórt plagg, en í raun er hann sjö reikningar.  Reikningurinn skiptist í A og B sjóð.  Undir A sjóði eru aðalsjóður (t.d. rekstur skóla, leikskóla og skrifstofu), eignasjóður og þjónustumiðstöð, en undir B sjóði eru veitustofnanir, dvalarheimili og leiguíbúðir.  Síðan er samstæðureikningur þar sem allir hinir reikningarnir eru teknir saman.  Helstu niðurstöðutölur úr samstæðureikningi eru eftirfarandi í þús. kr.:

Rekstrartekjur  
Skatttekjur kr. 81.614
Framlög Jöfnunarsjóðs  kr. 31.876
Aðrar tekjur  kr. 49.602

Samtals:  

kr.163.092
   
Rekstrargjöld  
Laun og launatengd gjöld   kr. 83.304
Annar rekstrarkostnaður   kr. 62.937
Afskriftir     kr. 14.199

Samtals:  

kr.160.440
   
Rekstrarniðurstaða án fjármuna-tekna og fjár-magnsgjalda   kr.  2.652
   
Fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld  kr. (1.790)
   
Rekstrarniðurstaða ársins  kr. 862

Þessa dagana gantast fólk með að sumarið hafi verið ansi stutt þetta árið en eftir veðurspánni að dæma virðist hretinu vera að linna.  Kirkingur er kominn í tré og runna og ekki er hægt annað en að sárvorkenna smáfuglunum.  Munurinn á þessu hreti og í fyrra er að frostið fór niður í 7 gráður í fyrra en nú er nærri frostlaust, því skulum við vona að náttúran fari ekki eins illa í ár.

 

Í síðasta pistli mínum minntist ég á íbúaþing en því var frestað fram á haust.  Kom það til af tvennu.  Lítil þátttaka var hjá félagasamtökum að kynna starfsemi sína og miklar annir hjá sveitarstjórnarmönnum.  Vonandi tekst betur til í haust.

Með von um að sauðburður og önnur vorverk gangi vel þrátt fyrir kuldann.
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri