Pistill,

Góðir lesendur! 

Flest erum við þannig að við álítum að það sem lengi hefur varað komi ekki til með að breytast.  Því rak okkur í rogastans þegar sú frétt kom að skólastjórinn Björn Ingólfsson, væri að hætta störfum og það vegna þess að hann væri að fara á eftirlaun, kornungur maðurinn.  Því er ljóst að breytingar verða í grunnskólanum á næsta ári þar sem nýr skólastjóri kemur og einnig nýr húsvörður, en Friðbjörn Baldursson hefur sagt upp störfum.  Báðar stöðurnar hafa verið auglýstar og eru umsóknir að tínast inn þessa dagana.  Vonast ég til að okkur takist vel upp við ráðningar því gott skólastarf er ein af forsendum góðs samfélags.

 Á þorra var haldið þorrablót á Grenilundi eins og  undanfarin ár. Oft föllum við í þá gryfju að halda að slíkar samkomur komi af sjálfu sér og eins og ég vék að hér að ofan, að það sem verið hefur verði sjálfkrafa áfram.  En þegar við förum að hugsa er ekkert sjálfgefið að starfsmenn Grenilundar leggi á sig ómælda sjálfboðavinnu til að koma þessu í kring.  Því er það minnsta sem hægt er að gera er að þakka þeim stöllum á Grenilundi  fyrir óeigingjarnt starf og eftir því sem ég hef heyrt frábæra skemmtun.  Einnig vil ég nota þetta tækifæri og þakka Sparisjóði Höfðhverfinga fyrir glæsilega gjöf sem hann gaf Grenilundi nú á dögunum en það var fullkomið sjúkrarúm.

 Í aprílmánuði er fyrirhugað að halda almennan hreppsfund í Grýtubakkahreppi.  Undanfarin ár hafa slíkir fundir verið haldnir og þar sem mæting hefur verið mjög góð má ætla að þetta fyrirkomulag mælist vel fyrir.  Yfirleitt hefur verið fenginn  einn gestafyrirlesari, en í dag er ekki ljóst hvort eða hver það verður.

Verkfræðistofa Norðurlands er nú að reikna út arðsemi hitaveitu í Grýtubakkahreppi.  Forsendurnar eru þær að hola í Grýtubakkalandi verði notuð og sett við hana varmadæla.  Reiknað er með að niðurstöður liggi fyrir nú í marsmánuði.

Frá 16. til 24. mars nk. kem ég til með að taka mitt árlega vetrarfrí.  Yfirleitt hef ég tekið tvær vikur en í ár verður fríið styttra eða aðeins ein vika.  Munu stúlkurnar á skrifstofunni leitast við að leysa úr málum og einnig verður Þórður oddviti til halds og trausts ef eitthvað kemur upp á.