Pistill

Kæru lesendur!

Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir liðin ár. Á fyrsta fundi sveitarstjórnar á nýju ári þann 5. janúar sl. var lokið við fjárhagsáætlun 2004.  Erfitt var að koma henni saman þar sem tekjur sveitarfélagsins rýrnuðu milli ára og ekki á hreinu hvar skyldi munda niðurskurðarhnífinn.  Það var því óvænt ánægja þegar sveitarfélagið fékk verulega leiðréttingu sinna mála frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á gamlársdag.  Gerði það fjárhagsáætlunargerðina auðveldari og var hún samþykkt með eftirfarandi niðurstöðutölum.

Skatttekjur    þús. kr. 110.799 Rekstrargjöld m. afskriftum þús. kr. 106.191 Afskriftir    þús kr.    14.081 Eignabreytingar   þús kr.    31.137 Tekin lán    þús kr.    13.000 Handbært fé í árslok  þús kr.      3.052

Langstærsta framkvæmdin er bygging búningsaðstöðu við íþróttahús og sundlaug auk viðbyggingar við grunnskóla. Reiknað er með að verkið verði boðið út í mars nk. og framkvæmdin taki mest allt framkvæmdafé sveitarfélagsins næstu 3 til 4 árin og er áætlaður kostnaður við verkið 80 - 90 millj.kr.

Nú er hafin vinna við þriggja ára áætlun og verður hún tekin til seinni umræði 2. febrúar.

Ég reikna með að málefni sparisjóðanna hafi verið æði mörgum hugleikin undanfarna daga og ekki síst fólki út á landsbyggðinni.  Ef samtakamáttur sparisjóðanna dvínar og þeir jafnvel keyptir af stærri bankastofnunum  verður það mikið högg fyrir landsbyggðina með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Við vonum að okkar 125 ára gamli sparisjóður fái að lifa um sinn og um leið eru honum færðar árnaðaróskir í tilefni afmælisins.

Fyrir áramótin voru tryggingar Grýtubakkahrepps boðnar út, en áður voru allar tryggingar sveitarfélagsins hjá Vís. Fjögur tryggingafélög buðu í og var Sjóvá Almennar lægst.  Samið var við lægstbjóðanda frá og með síðustu áramótum.  Ég þakka Vís fyrir góða þjónustu í gegnum árin. Það er von mín að sem flestir hafi átt gleðileg jól og áramót og er ástæða til að þakka fyrir margar góðar stundir svo sem guðþjónustur, jólatrés- skemmtun, flugeldasýningu á þrettándanum og margt fleira.

Með von um að nýja árið verði farsælt og ánægjulegt.