Pistill

Kæru lesendur.
Ég mun hér á eftir rekja það sem efst er í mínum huga nú í byrjun jólaföstu.

Í byrjun nóvember sótti ég fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og samfara henni var boðið upp á viðtalstíma hjá alþingismönnum norðausturkjördæmis.  Á fjármálaráðstefnunni var mikið rætt um fjárhagsvanda sveitarfélaga.  Stafar hann aðallega af minna framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, auk þess sem fjölgun einkahlutafélaga og lækkun fiskverðs hefur áhrif á staðgreiðslu og útsvar til lækkunar, sérstaklega í sjávarbyggðum.  Á fundi með þingmönnum var lögð áhersla á þrennt.  Í fyrsta lagi lækkun framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Í öðru lagi  sameiningu sveitarfélaga, en þar var lögð áhersla á að íbúar hvers sveitarfélags geti hafnað eða samþykkt sameiningu fyrir sitt leyti, en rætt er um að telja úr einum potti og ef kosið verður um sameiningu alls Eyjafjarðar gilda fá atkvæði úr Grýtubakkahreppi lítið.  Í þriðja lagi ADSL tengingu á alla þéttbýlisstaði á landsbyggðinni, en fram að þessu hefur ekki verið sett ADSL tenging á þéttbýlisstaði þar sem íbúar eru færri en 500.  Öll fjarvinnsla og fjarnám reynist afar erfitt þegar fjarskiptatengingar eru jafn lélegar og raun ber vitni.  Einnig ber að hafa í huga að staðsetning fyrirtækja er oft háð því hvernig fjarskiptum er háttað auk þess sem ungt fólk sem flytur aftur í heimabyggð sættir sig ekki við þau óþægindi sem fylgir lélegu fjarskiptasambandi.

Á dögunum fór sveitarstjórn Grýtubakkahrepps í vettvangsferð til Dalvíkur og Ólafsfjarðar.  Er þetta þriðja haustið sem sveitarstjórnin fer í slíka ferð.  Afar gagnlegt er að sjá hvað aðrir eru að gera og kynnast viðhorfum annarra sveitarstjórnarmanna, auk þess sem starfsandinn verður enn betri.

Árbók sveitarfélaga 2003 er nýlega komin út.  Hér á eftir koma nokkrar samanburðartölur milli okkar sveitarfélags og meðaltals sambærilegra sveitarfélaga með 300-999 íbúa.                                                                  Grýtubakkahr.  Sambærileg % er hlutf. af tekjum.  sveitarsjóður    sveitarfélög.

Laun og launat.gj.             47%             50,7% Veltufé frá rekstri             17,5%              5,7% Skuldir án sk. sveitarsj      36,3%             71,4%

Ekki þarf að reikna með svo góðri afkomu á árinu 2003 og stafar það af tekjusamdrætti.

Í nóvember var árshátíð Þengils, Þráins og Búnaðarfélagsins og í lok mánaðarins var kvennakvöld hjá Hlín.  Slíkar samkomur gera byggðalagið að samfélagi og mega ekki leggjast af.  Því miður var pistilshöfundur fjarverandi og gat ekki nýtt sér fyrrnefndar skemmtanir en sögur fara af að þær hafi verið einstaklega góðar.

Að lokum óska ég öllum gleðilegra jóla og yfirkeyrið ykkur ekki í jólaatinu.