Pistill

Góðir lesendur. 
Þegar önnum sumarsins lýkur er hollt að setjast niður og átta sig á helstu verkefnum vetrarins og jafnvel átta sig á stefnu til lengri tíma.
13 svör komu vegna könnunar sem gerð var í októbermánuði á vegum Grýtubakka- hrepps.  Könnunin fjallaði um viðhorf íbúa Grýtubakkahrepps til reksturs sveitar-félagsins.  Þessa dagana er verið að vinna úr niðurstöðum könnunarinnar, en í henni kom margt athyglisvert fram.
Stærsta verkefni næstu mánaða verður eflaust hönnun og bygging nýbyggingar við skóla, sundlaug og íþróttahús.  Haldinn hefur verið einn byggingarnefndarfundur og þessa dagana er verið að gera húsrýmisáætlun og átta sig á  hvernig hús við þurfum.  Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir 45 millj. kr. á næstu þremur árum, en ljóst er að sú upphæð nægir engan veginn.  Reiknað er með að hægt verði að bjóða verkið út í febrúar 2004.
Eins og komið hefur fram í fréttum hefur umhverfisráðherra gert tillögu um að gera skagann milli Eyjafjarðar og Skjálfanda að friðlandi.  Við verðum að átta okkur á kostum og göllum þessara breytinga og taka síðan ákvörðun í ljósi þess, en ljóst er að friðlýsingunni verður ekki þröngvað upp á okkur með valdi.
Atvinnumál sveitarfélagsins eru alltaf ofarlega á baugi.  Mikils er um vert að lyfjafyrirtækið okkar gangi og í dag er ekkert sem bendir til annars þótt fyrstu sporin í rekstri séu alltaf erfið fjárhagslega. Áhugavert verður að fylgjast með hver framvindan verður hjá fyrirtækinu og vaxtarmöguleikar. Annar vaxtarsproti er hugsanleg bygging gistiheimilis á horni Ægissíðu og Miðgarða.
Að lokum ætla ég að minnast á námskeið sem haldið var  fyrir starfsfólk Grýtubakkahrepps föstudaginn 31. október sl. Tæplega 30 starfsmenn Grýtubakkahrepps mættu á námskeiðið og var það í alla staði vel heppnað.  Miklu skiptir hvernig fólki líður í vinnunni.  Ég vona að námskeiðið hafi orðið til þess að auka vellíðan í starfi hjá starfsfólki Grýtubakkahrepps og ef svo er, þá er vel.