Pistill

Ágætu lesendur.

Nú er mánuður liðinn síðan heimasíða Grýtubakkahrepps var tekin í notkun.  Ég hef fengið góð viðbrögð við henni frá heimafólki og brottfluttum, bæði hérlendis og erlendis.  En eitt er að gera heimasíðu og annað er að halda henni lifandi.  Við ætlum að leggja okkur fram við að svo megi verða, en í dagsins önn er alltaf hætta á að slík verkefni, víki fyrir öðrum.
Af rekstri sveitarfélagsins er það helst að frétta að flestum framkvæmdum er nú að mestu lokið nema viðgerðum á Ægissíðu 21 en í þær verður farið í þessum mánuði.
Það veldur okkur vonbrigðum að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru 12 m.kr lægri en í fyrra og 9 m.kr. lægri en í áætlun sveitarfélagsins.  Margvíslegar ástæður eru fyrir því, en ein er sú að sjóðurinn var í sögulegu hámarki árið 2002.  Einnig hafa verið teknar upp nýjar reglur sem valda því t.d. að framlag lækkar vegna skólaaksturs og sveitarfélög sem hafa sameinast og þau stærri fá meira.  Þetta verður til þess að greiðslustaða sveitarfélagsins er erfið og við þurfum að fara í nýjar lántökur sem ekki var reiknað með.
Eins og fram hefur komið í fréttum stendur fyrir dyrum átak í sameiningu sveitarfélaga.  Skiptar skoðanir eru um sameiningu í okkar sveitarfélagi eins og víða annars staðar. Félagsmálaráðherra er væntanlegur hingað í sveitarfélagið á næstunni og ætlar að halda fund um málið.  Hvet ég sem flesta til að koma, hvar í flokki sem þeir eru, til að tjá skoðanir sínar.  Við vitum að það gerist ekkert ef við einungis röbbum heima við eldhúsborðið. Engar tillögur hafa enn litið dagsins ljós, en reiknað er með að kosið verði um sameiningu á vordögum 2005.
Breytingar hafa orðið á starfsliði á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Ragnheiður Harðardóttir er hætt störfum og eru henni þökkuð góð störf síðastliðin 12 ár.  Við hennar starfi tók Finnbjörg Guðmundsdóttir og er hún boðin velkomin til starfa. Að lokum vænti ég þess að þið verðið jafn dugleg að heimsækja heimasíðu Grýtubakkahrepps og verið hefur.
Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri.